Skjótt skipast oft veður og sagt er að vika sé langur tími í pólitík. Fésbókarsíða Jóns Steinars Gunnlaugssonar lögmanns og fv. hæstaréttardómara er ágætt dæmi um þetta, en þar var Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri útnefnd forsetaefni í morgun með miklum tilþrifum, aðeins til að sá stuðningur væri dreginn til baka nokkrum klukkustundum síðar.
Í morgun var Jón Steinar búinn að gera upp hug sinn og hvatti fólk til að styðja Höllu Hrund, sem tilheyrði á árum áður svonefndum Deigluhópi ungs hægri fólks, og skrifaði nokkra pistla á þeim vettvangi:
„Þar sýnist mér vera verðugur frambjóðandi, sem auk annars muni ekki hyggja á andstöðu við orkuöflun úr náttúruvænum auðlindum þjóðarinnar, ef Alþingi tekur ákvarðanir um slíkt. Ég hef fyrir mitt leyti fram til þessa stutt framboð Arnars Þórs Jónssonar en hann virðist ekki njóta nægilegs fylgis til að ná kjöri. Ég segi því bara: Kjósum Höllu Hrund.“
Síðdegis í dag var svo komið annað hljóð í strokkinn:
„Mér varð á í messunni þegar ég setti inn færslu um stuðning við Höllu Hrund Logadóttur, að vísu að því tilskildu að hún myndi ekki beita sér gegn virkjunum ef hún kæmist í stólinn. Nú hefur mér verið sýnt efni sem sýnir að konan er einmitt á móti orkuvinnslu þó að hún sé náttúruvæn. Það þýðir að stuðningur minn við hana var byggður á misskilningi og er því dreginn til baka. Sá eini sem unnt er að styðja er því eftir sem áður Arnar Þór Jónsson.“
Víst er að lausafylgi í stjórnmálum er einmitt það, laust fylgi. Eitt viðtal, einar kappræður, einn fundur eða nýjar upplýsingar geta ýmsu breytt. Færslur Jóns Steinars eru frábært dæmi um það. Og enn er langt til kosninga…