Halla Hrund toppaði of snemma: Hvað gerist nú?

Tvær nýjar skoðanakannanir Maskínu og Gallup sýna, svo ekki verður um villst, að ótrúlegt flug Höllu Hrundar Logadóttur í skoðanakönnunum er á enda. Halla Hrund fer milli vikna í Þjóðarpúlsi Gallup úr 36% í 25%, sem vel mætti skilgreina sem ákveðið hrun, sérstaklega í ljósi þess hvernig hún fór með himinskautum í könnunum fram að því. Gallup-könnunin fyrir viku hafði sýnt hana með 14 prósentustiga forystu á næsta frambjóðenda, en í könnun gærdagsins eru þær orðnar jafnar, hún og Katrín Jakobsdóttir, sem bætir við sig fylgi milli vikna.

Hér á þessum vettvangi var varað við því fyrir nokkrum vikum, að þótt gaman sé að hagfelldum könnunum, er hættulegt í kosningabaráttu sem þessari að toppa of snemma. Kosningabarátta Þóru Arnórsdóttur fyrir tólf árum er frábært dæmi um það, en þá mældist hún með tæplega helmingsfylgi fimm vikum fyrir kjördag. Stórar yfirlýsingar voru gefnar um að þar með væri útséð með úrslitin og aðrir gætu bara axlað sín skinn, en reyndin varð að allt loft hvarf fljótlega úr loftbelgjum framboðsins og Ólafur Ragnar sigldi nokkuð öruggum sigri heim.

Ekki leikur á tveim tungum að sama hefur nú gerst með framboð Höllu Hrundar. Í öllu taugaveiklunaratinu sem einkennist íslenska þjóðmálaumræðu nú um stundir, kom hún eins og stormsveipur inn á sviðið; stórglæsileg og geislandi. Margir tóku þeim kosti vel, aðrir hreint eins og frelsandi engli og settu hana samstundis á einhvern helgan stall, en staðreyndin er að flestir höfðu litla sem enga hugmynd um hvaða manneskja þetta væri. Allt tal um að ný Vigdís væri mætt til leiks, var bara það, innantómt tal og minnti á hinn fræga Þórudag fyrir tólf árum, sem margir vilja eflaust að verði gleymdur að eilífu.

Óörugg og þreytt í kappræðum

En þegar frambjóðandi fer með himinskautum og mælist með 36% fylgi fimm vikum fyrir kjördag, er sjálfgefið lögmál að kastljósið beinist að honum. Sem og gerðist. Halla Hrund mætti með langsterkustu stöðuna í Kappræður RÚV á föstudagskvöldinu fyrir viku, en þar átti hún ekki frammistöðu í samræmi við það. Hún virkaði þreytt og óörugg. Í samanburði við marga aðra frambjóðendur það kvöld, var hálf ankannalegt að hún hefði svo mikið fylgi.

Hún getur heldur ekki treyst endalaust á að árásir Steinunnar Ólínu á Katrínu Jakobsdóttur virki sér til framdráttar.

Fleira hefur svo komið til á undanförnum dögum. Gengið var hart að Höllu Hrund í Spursmálum Mbl, eins og öðrum frambjóðendum, en stuðningsmenn hennar tóku það óstinnt upp og gagnrýndu af mikilli vanstillingu eins og um skipulagðar ofsóknir væri að ræða. Þá hefur verið gagnrýnt að orðaskrúð hennar sé meira en innihaldið og eftir því sem viðtölum og tækifærisræðum fjölgar, fara fleiri að pæla í því.

Frá kappræðum á RÚV. /ruv.is

Búið spil?

Er þetta bara þá búið spil hjá orkumálastjóranum? Auðvitað ekki, en jafnljóst er að hún þarf að breyta aðeins um kúrs. Hennar fylgi er augljóslega alls ekki fast í hendi og Halla Tómasdóttir heggur sumpart í sama knérunn og uppsker eftir því með stórsókn. Af Höllunum tveimur er Tómasdóttir tvímælalaust reynslumeiri og vanari opinberri framkomu og það skiptir miklu máli.

Halla Hrund þarf að fækka frösum, draga úr handapati og fagurlega sköpuðum sápukúlum, svo notað sé líkingamál. Hún þarf að vera meira hún sjálf og segja betur frá því hver hún er. Og hvað hún vill gera. Ekki gengur endalaust að sitja á girðingunni í mikilvægum málum. Hún getur heldur ekki treyst endalaust á að árásir Steinunnar Ólínu á Katrínu Jakobsdóttur virki sér til framdráttar. Eins og sést hefur síðustu daga, snúast slíkar árásir upp í öndhverfu sína ef þær ganga úr hófi fram.

Þegar allt er í járnum, þá er mikilvægt að halda stillingu. Fara ekki á taugum. Sígandi lukka er alltaf best og þjóðin á lokaorðið.

Ákall eiginmannsins

Þessu virðist Kristján Freyr Kristjánsson, eiginmaður Höllu Hrundar, gera sér glögga grein fyrir, því hann skrifaði ákall til stuðningsmanna hennar í gærkvöldi, til að bregðast við gjörbreyttri stöðu:

„Í tilefni af nýjum skoðanakönnunum langaði mig að senda á ykkur stutta kveðju. Fyrir nokkrum vikum hefðu fáir trúað því að Höllu Hrund myndi takast að mælast í efstu sætunum á þessum tímapunkti í kosningabaráttunni. Við vissum allan tímann að það myndi taka tíma að kynna Höllu Hrund, og að við myndum vera töluvert á eftir öðrum frambjóðendum til að byrja með.

En síðan lögðum við af stað í þetta ferðalag og ég man vart eftir öðrum eins meðbyr og eftirspurn eftir frambjóðanda. Það eru nú yfir 500 sjálfboðaliðar búnir að skrá sig til leiks. Það er oftar en ekki fullt út úr dyrum á fundum víða um land og oft á tíðum langar biðraðir sem myndast til að fá myndir með Höllu Hrund. Ég held að þetta sé skýr vísbending um að það sé ákall hjá þjóðinni um breytingar og nýtt andlit þegar kemur að forsetaembættinu.“

Kristján Freyr beinir því til að lokum til stuðningsmanna, að láta ekki skoðanakannanir hafa of mikil áhrif.

„Fylgið mun áfram fara upp og niður — en það sem þær sýna okkur er að ef við höldum áfram að tala máli Höllu Hrundar og leggja framboði hennar áfram lið með öllum þeim fjölbreytta hætti sem þið eruð nú þegar að gera, og fá fleiri til liðs við okkur, þá aukast líkurnar á því að hún nái kjöri sem 7. forseti íslenska lýðveldisins.“

Enn er nægur tími til stefnu og lokaspretturinn verður spennandi. Við fylgjumst áfram með…