Halla Tómasdóttir gæti átt sterka endurkomu næstu daga

Ljóst er að landsmenn hafa skiptar skoðanir á frammistöðu frambjóðenda í kappræðunum í Sjónvarpinu sl. föstudagskvöld, en samt er hægt að fullyrða að Halla Tómasdóttir kom einna best út úr þeim.

Vitað er að frambjóðandi á borð við Katrínu Jakobsdóttur á sér bæði harða stuðningsmenn og andstæðinga, sumir þeirra virðast jafnvel í framboði bara til að klekkja á henni, en einkum hafa þau Halla Hrund Logadóttir, Baldur Þórhallsson og Jón Gnarr bitist um fylgi þeirra sem vilja annað en reynslumikinn stjórnmálamann á Bessastaði.

Fyrst stal Baldur alveg senunni með snemmbúnu framboði sínu, sem er vel skipulagt, en undanfarna daga hefur stórsókn Höllu Hrundar vart farið framhjá nokkurri manneskju.

Í öllum þessum látum og aragrúa nokkuð misvísandi skoðanakanna, hefur framboð Höllu Tómasdóttur farið svolítið undir radarinn. Ekki í fyrsta sinn, því nákvæmlega það sama gerðist í kosningabaráttunni fyrir átta árum.

Hér skal því spáð að Halla Tómasdóttir taki nokkurt stökk í skoðanakönnunum næstu daga og það verði mest á kostnað þeirra Baldurs og Höllu Hrundar, því líklegra er að stuðningsfólk Katrínar sé vissara í sinni sök; styðji hana þrátt fyrir pólitíska fortíð og jafnvel kannski einmitt vegna hennar.

Áhorfendur fengu tækifæri til þess sl. föstudagskvöld að vera saman ólíka frambjóðendur og þar stóð Halla Tómasdóttir sig einfaldlega mjög vel. Í reynd virtist hún hin eina í hópi frambjóðenda utan Katrínar sem virtist á heimavelli í beinni útsendingu og komin þangað til að sækja fylgi, ekki bara sleppa fyrir horn. Halla Hrund hefur til dæmis háð mjög sterka baráttu og skipulagða, en hún var ekki upp á sitt besta í þessum kappræðum og það gæti skipt máli.

Hvort þessi spádómur rætist kemur í ljós á næstu dögum, en forvitnilegt verður að sjá hvort fimmta manneskjan er að stimpla sig af alvöru inn í kapphlaupið og keppa um lausafylgið. Það væri eitthvað…