Óhætt er að tala um vík milli vina, þegar nýjasta færsla Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fv. hæstaréttardómara, á fésbókinni er lesin, því þar upplýsir hann að Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði, hafi eytt athugasemdum hans við grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag og fjallar um mistæka stjórnmálamenn.
Jón Steinar skrifar:
„Hannes Hólmsteinn setti í morgun inn á heimasíðu sína grein sem hann birtir í Morgunblaðinu í dag undir fyrirsögninni ,,Mælanleg mistök“. Segir hann þar frá stjórnmálamönnum sem hefur orðið á að gera mistök og sýna þannig af sér dómgreindarbrest. Nefndi hann dæmi um þetta.
Ég spurði hann hvort hann myndi þá líka nefna tilvik, þar sem Davíð Oddsson hefði orðið sekur um hið sama. Benti ég á tvö tilvik þar sem hann í embætti forsætisráðherra hafði a)reynt að takmarka heimildir manna til að eiga eignarhluti í fjölmiðlum og b)viljað koma fram lagaheimild til að láta ríkið ábyrgjast svimandi háa erlenda fjárskuldbindingu Íslenskrar erfðagreiningar hf.
Í hvorugu þessara tilvika hafði hann komið vilja sínum fram vegna þess dómgreindarbrests sem hann sýndi með tillögugerðinni og allir sáu. Í annað skiptið vildi hann þagga niður í mönnum sem hann taldi hafa talað illa um sig. Í hitt skiptið vildi hann misnota ríkissjóð í þágu vinar síns Kára Stefánssonar. Þessi dæmi hlyti hlutlaus fræðimaðurinn að nefna til sögunnar.
Nú kemur í ljós að Hannes hefur eytt athugasemdum mínum um þetta af síðu sinni. Þetta er ótrúleg óskammfeilni. Þeir sem til þekkja vita að hann dáir Davíð Oddsson og telur hann nánast guðlegan. En er þetta ekki of langt gengið hjá prófessornum? Aðdáun hans á Davíð virðist vera honum meira virði en fræðimannsheiður hans sjálfs.
Mér sýnist þetta jafngilda yfirlýsingu af hans hálfu um að ekki sé ástæða til að taka skrif hans og kenningar alvarlega framvegis, því hann tekur persónulega hagsmuni sjálfs sín og náinna vina sinna fram yfir þann málefnalega heiðarleika sem fræðimönnum ber að sýna af sér. Ekki bara stundum heldur alltaf.“