„Mér finnst svolítill svipur með þessum tveimur köppum og kannski er full ástæða fyrir þann sem hefur ekki nú þegar ákveðið að gefa kost á sér sem leiðtogi, eða til forystustarfa, að íhuga það alvarlega á næstunni,“ segir Bjarki Þorsteinsson, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar í Borgarbyggð og leiðtogi sjálfstæðismanna í Borgarfirði um árabil í færslu sem hann ritar á fésbókina í kvöld þar sem hann deilir með mynd af Haraldi Benediktssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins og Boris Johnson sem líklegt er að verði á næstu dögum leiðtogi breska Íhaldsflokksins og þar með forsætisráðherra Breta.
Bjarki vísar til þess að umræða sé hafin um möguleg forystuskipti í Sjálfstæðisflokknum. „Allavegana, það hefur orðið umræða um stöðu Sjálfstæðisflokksins að undanförnu, eðlilega að mínu mati. Því er fullt tilefni til að velta við steinum, ræða málin, og allt í fullri virðingu fyrir núverandi forystufólki Sjálfstæðisflokksins, sem allt er sómafólk.
Haraldur Benediktsson hefur sýnt með framgöngu sinni á alþingi, í forystu fjárlaganefndar og í öðrum verkum að hann er skynsamur, lausnarmiðaður og maður sátta þó þannig að það næst ætíð lending og verkin komast í framkvæmd – og það eru stórir kostir!
Með hverjum deginum sem líður styttist í næsta landsfund Sjálfstæðisflokksins, er ekki fullt tilefni Haraldur til að hugsa málið?,“ segir Bjarki ennfremur.
Haraldur Benediktsson var formaður Bændasamtakanna um árabil. Hann er fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis, en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherra var í 2. sæti á eftir honum.