Hátt hlutfall efasemdarfólks um loftslagshlýnun dauðafæri fyrir Miðflokkinn

Guðmundur Steingrímsson fv. alþingismaður.

„Einhvern veginn þykir mér líklegt að í kjölfarið á nýrri skoðanakönnun Capacent Gallup í síðustu viku hafi þingflokkur Miðflokksins farið á duglegt fyllerí og aldeilis látið gamminn geisa.“

Þetta skrifar Guðmundur Steingrímsson, fv. formaður og stofnandi Bjartrar framtíðar, í Fréttablaðið í dag. Guðmundur, sem einnig hefur verið í Samfylkingunni og Framsóknarflokknum og lenti upp á kant við Sigmund Davíð Gunnlaugsson í síðarnefnda flokknum, vísar þarna til skoðanakönnunar sem sýnir að 23% landsmanna telja að loftslagsbreytingar séu ekki af manna völdum. Um 23% landsmanna telja jafnframt að of mikið sé gert úr þætti mannsins þegar kemur að hlýnun jarðar.

„Umtalsverður hluti þjóðarinnar telur allt þetta loftslagstal verulegar ýkjur. Eins og Miðflokkurinn. Þetta er auðvitað dauðafæri fyrir hann,“ segir Guðmundur sem telur könnunina stórmerkilega.

„Nýjasta umhverfiskönnun Capacent er stórmerkileg. Áður en maður fellur í fullkomið þunglyndi yfir því að 23% þjóðarinnar telji sig virkilega vita betur en allt vísindasamfélag veraldarinnar og telur litla ástæðu til að hafa áhyggjur, þó ekki væri nema smá, af mögulegu hruni lífríkisins, þá verður maður að minna sig líka á aðra stóra drætti sem komu fram í sömu könnun. Íslendingar eru almennt að breyta neyslumynstri sínu og hegðun út af loftslagsmálum. Loftslagsmál eru í öðru sæti á eftir heilbrigðismálum yfir mestu áhyggjuefni þjóðarinnar. Og þótt 23% telji náttúrunni um að kenna og 10% segist ekki vita neitt um þau mál, að þá eru þó tæplega 70% þjóðarinnar með það á hreinu að hlýnun andrúmsloftsins er af manna völdum.“

Hann bætir við að það sé „fullkomlega út í hött — miðað við alla umræðuna og allan þann hafsjó óyggjandi vitnisburða sem streyma yfir mannkyn á degi hverjum“ að hlutfall efasemdarfólks sé svo hátt og hækki milli kannana.

„Sanniði til. Að 23% landsmanna séu svona þenkjandi eins og könnun Capacent ber vitni um, er ávísun á stóraukið fylgi popúlistaflokks á Íslandi. Afneitunina má færa sér í nyt. Í næstu alþingiskosningum verða umhverfismál lykilmál. Allir flokkar munu leggja áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum, vegna þess að það mun blasa við að slíkt verður að gera, og það hratt. Allir flokkar, segi ég, nema einn. Einn flokkur mun segja nei hva. Alveg einsog Roger Ailes. Þetta loftslagstal er rugl. Vísindin eru samsæri. Hviss, pang. Tuttugu og eitthvað prósent í höfn.

Gott og vel. Fari það fólk á fyllerí. Aðalatriðið er þetta: Þegar þetta gerist þurfa hin sjötíu og eitthvað prósentin virkilega að standa í lappirnar.“