„Ég skora á þig forseti Alþingis, Steingrímur Sigfússon, að leggjast undir feld og hugsa gagnleg ráð til að afstýra vaxandi óeiningu, ólgu og reiði í landinu okkar vegna ástandsins á Alþingi,“ segir Sigurður Sigurðsson, fv. yfirdýralæknir í þungorðri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar skorar hann og á ríkisstjórnina að hlusta á raddir fólksins í landinu og leggjast undir feld að fornum sið, svo ekki fari illa.
„Þar ríkir málþóf og þagnarþóf um orkumálin okkar og horfur eru á því, ef orkupakkinn verður samþykktur, að stjórn orkumála verði tekin úr höndum Íslendinga og fengin sameiginlegri orkunefnd Evrópubandalagsins. Þá verður ekki tekið tillit til sérstöðu Íslands. Þar er óvissa um, hvort slík samþykkt muni brjóta gegn stjórnarskránni. Ég hef í höndum erindi þín á Alþingi fyrir nokkrum árum þar sem þú varar við horfum í meðferð orkunnar okkar og ásælni Evrópubandalagsins, en það hefur Bjarni Benediktsson einnig gert. Við höfum trúað á þig Steingrímur og vörn þína fyrir sjálfstæði og fullveldi landsins. Nú viljum við heyra ávarp þitt til þjóðarinnar. Ég vil vita, hvort þú hefur skipt um skoðun,“ segir Sigurður ennfremur í grein sinni.
„Svokallaðar tryggingar sem stjórnvöld slá fram verða einskis virði eins og reynslan hefur sýnt okkur um fyrri ,,tryggingar“. Vilt þú nú samþykkja afsal stjórnar landsins á orkumálunum og vilt þú samþykkja orkupakka þrjú og það sem á eftir fer númer 4 og 5 og hvers vegna ef svo er? Hefur þú blekkt okkur og svikið? Annar Þingeyingur, Þorgeir Ljósvetningagoði, lagðist undir feld á Alþingi fyrir 1000 árum rúmum til að hugsa málin, þegar vandi og ósætti steðjaði að þjóðinni. Þegar hann kom undan feldinum stuðluðu orð hans og ávarp til þjóðarinnars að friði og hann hefur notið virðingar síðan. Sama gæti átt við um þig. Núverandi ráð gagnast ekki. Við treystum þér, Steingrímur, til að ávarpa þjóð þína í anda Ljósvetningagoðans og gera þitt til að stuðla að friði. Þín er ábyrgðin mikil vegna þess frumkvæðis sem þú hefur við stjórn umræðna á Alþingi. Fyrst og fremst skal hugsa um auðlindir okkar, sem eru í hættu fyrir sölumönnum og niðurrifsöflum, innlendum sem erlendum,“ bætir hinn landsþekkti dýralæknir við.
Áskorun til ríkisstjórnarinnar
„Ég skora á alla ríkisstjórnina, sem hefur úrslitavald um meðferð mála á þingi, að gera það sama, leggjast undir feld og hugsa ráð til að stuðla að samstöðu og friði með þjóðinni og afstýra óeiningu og klofningi og reiði meðal almennings. Við störf mín á Keldum í 40 ár hef ég kynnst vel fólki á ýmsum aldri um allt land.
Þetta er skynsamt og velviljað fólk eins og alþingismenn eru, en hvorki heimskingjar, ellibelgir né popúlistar eins og þið fylgjendur orkupakkans viljið vera láta. Þið megið skammast ykkar, sem svona talið, fyrir ósvífnina og ódrengilegar aðdróttanir í garð þjóðhollra mannna.
Slíkt samþykki gæti og ætti að verða þeim dýrkeypt
Fjölmargir vantreysta alþingismönnum og sjá í gegn um blekkingar, sem viðhafðar eru. Alls staðar þar sem þetta mál kemur til umræðu ríkir undrun og hneykslun á ofbeldi því sem alþingismenn ætla að beita gegn þjóðinni og finna sárt til þess að þjóðaratkvæðagreiðsla kemur ekki til greina.
Hættið við þessi óheillavænlegu áform, alþingismenn, sem munu níða niður traustið á Alþingi og stuðla að klofningi í stjórnmálaflokkum. Við viljum ekki slíka óheillaþróun fyrir virðingu Alþingis. Ég trúi að það verði tekið vel eftir því, hvaða alþingismenn samþykkja orkupakkann, ef til atkvæðagreiðslu kemur. Slíkt samþykki gæti og ætti að verða þeim dýrkeypt,“ segir Sigurður ennfremur.