Óhætt er að fullyrða að mörgu sjálfstæðisfólki hafi svelgst á yfir morgunkaffinu í morgun þegar Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins var lesið, því það er ein samfelld árás á forystu Sjálfstæðisflokksins sem fagnar nú 90 ára afmæli flokksins og ótrúlega hörð gagnrýni á framgöngu hans í orkupakkanum þriðja og ýmsum fleiri málum.
„Það gerðist ekki mikið á 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins og reyndar var engu líkara en að afmælið brysti óvænt á og það þrátt fyrir óvænta heiðursgesti, formann VG, formann Framsóknarflokksins, þá sömu sem vildu draga fyrrverandi formann flokksins, Geir H. Haarde, fyrir Landsdóm í þeim yfirlýsta tilgangi að koma honum á bak við lás og slá,“ segir Davíð Oddsson, fv. formaður flokksins og forsætisráðherra í bréfinu.
„Fyrsti heiðursgestur flokksins var nýbúinn að lýsa því yfir að hún vildi að sett yrðu lög sem heimiluðu konum að ákveða að farga ófæddu barni sínu allt þar til komið væri að fæðingu þess eftir 9 mánaða meðgöngu.
Það er enginn vafi á því að væru almennir sjálfstæðismenn spurðir um þessa draumsýn formanns VG þætti yfirgnæfandi meirihluta þeirra þetta fjarstæðukennd afstaða ef ekki beinlínis óhugguleg.
Þá mun varaformaður Samfylkingar einnig hafa verið í hópi útvalinna heiðursgesta. Samfylkingarforystan kallar barn sem kona gengur með „frumuklasa“ allt að fæðingu eins og fram hefur komið.
Varla er hægt að kenna vali á heiðursgestum í þessu afmæli um það hversu illa samkundan var sótt, þótt vorsólin blíða léti sitt ekki eftir liggja og einhverjir hoppukastalar til taks,“ bætir hann við.
Vissulega megn óánægja í flokknum
„En af hverju þurfti að læðast með veggjum með þetta afmæli? Það er vissulega megn óánægja í flokknum og þá ekki síst meðal kjósenda hans og hugsanlegra kjósenda með óskiljanlega framgöngu flokksins í orkupakkamálinu, þar sem hiklaust er byggt á blekkingum, sem raunar eru fjarri því að vera lofsverðar,“ bætir ritstjórinn við og nefnir þessu til staðfestingar fjölda aðsendra greina í blaðinu, sem hafi verið hófstilltar og málefnalegar.
Nefnir hann sérstaklega í þeim efnum grein Jóns Hjaltasonar í Háspennu, sem Viljinn sagði frá á dögunum, og vakti mikla athygli. Segir Davíð hana hafa verið óvænta; hárbeitta og hitta beint í mark. Segir hann Jón tala beint til forystu Sjálfstæðisflokksins í greininni, en þar sagði hann meðal annars:
„Ég velti fyrir mér hvort ekki væri farsælla að þið færuð frá flokknum en að flokkurinn fari frá ykkur.“
„Mér finnst hún hrikaleg“
Davíð skrifar ennfremur:
„Það hringdi pýðilegur áskrifandi, en það má segja um þá alla, daginn sem grein Jóns birtist. Hún bað um samtal við þann sem þetta ritar. „Hvað finnst þér um grein Jóns í morgun?“ „Meira máli skiptir hvað þér þykir,“ sagði ritstjórinn. „Mér finnst hún hrikaleg.“ „Og hvað þykir þér hrikalegast við hana?“ „Hún er svo sönn. Hrikalega sönn. Og það sem enn lakara var að ég sem fylgist ekkert mjög vel með gat í sjónhendingu bætt fjölda atriða við þennan lista.“
Miðað við samræmdar árásir sem leyna sér ekki og spunameistarar halda utan um og Jón nefnir í upphafi sinnar greinar er rétt að taka fram að ritstjórar Morgunblaðsins hafa ekkert heyrt um stefnu eða rökstuðning þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Morgunblaðið er borgaralegt blað og þótt það lúti ekki fjarstýringum utan úr bæ frá flokkum eða einstaklingum lætur að líkum að blaðið ætti oftar en ekki að geta átt góða samleið með flokknum ef hann er sjálfum sér samkvæmur og heill í fögrum fyrirheitum sínum.
Hvað orkupakkamálið varðar gat enginn ætlað annað. Landsfundur flokksins hafði lagt línuna: „Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.“ Nú reyna menn með einkar aumu og satt best að segja algjörlega óboðlegu yfirklóri, langt fyrir neðan sína virðingu, að láta eins og almennt hjal, sem verið hefur í almennum yfirlýsingum fundarins og einskis getið við afgreiðslu þess hafi eytt fyrrnefndri ákvörðun með göldrum.
Þessir klaufalegu kollhnísar hófust þó ekki fyrr en á lokametrunum. En sjálfstæðismenn töldu ekki ástæðu til að óttast.
Landsfundarákvörðunin lá fyrir og sjálfur formaður flokksins hafði í áheyrn alþjóðar úr ræðustól Alþingis tekið af öll tvímæli vorið 2018 og aldrei gefið til kynna að hann myndi snúast í sams konar hring og hann gerði í Icesave forðum, svo flokksmenn undruðust og horfðu hryggir á,“ skrifar Davíð Oddsson ennfremur í Reykjavíkurbréfi sem sætir tíðindum í íslenskum stjórnmálum, svo vægt sé til orða tekið.