Heiðursgestirnir þeir sem vildu koma Geir H. Haarde á bak við lás og slá

Óhætt er að fullyrða að mörgu sjálfstæðisfólki hafi svelgst á yfir morgunkaffinu í morgun þegar Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins var lesið, því það er ein samfelld árás á forystu Sjálfstæðisflokksins sem fagnar nú 90 ára afmæli flokksins og ótrúlega hörð gagnrýni á framgöngu hans í orkupakkanum þriðja og ýmsum fleiri málum.

„Það gerðist ekki mikið á 90 ára af­mæli Sjálf­stæðis­flokks­ins og reynd­ar var engu lík­ara en að af­mælið brysti óvænt á og það þrátt fyr­ir óvænta heiðurs­gesti, formann VG, formann Fram­sókn­ar­flokks­ins, þá sömu sem vildu draga fyrr­ver­andi formann flokks­ins, Geir H. Haar­de, fyr­ir Lands­dóm í þeim yf­ir­lýsta til­gangi að koma hon­um á bak við lás og slá,“ segir Davíð Oddsson, fv. formaður flokksins og forsætisráðherra í bréfinu.

„Fyrsti heiðurs­gest­ur flokks­ins var ný­bú­inn að lýsa því yfir að hún vildi að sett yrðu lög sem heim­iluðu kon­um að ákveða að farga ófæddu barni sínu allt þar til komið væri að fæðingu þess eft­ir 9 mánaða meðgöngu.
Það er eng­inn vafi á því að væru al­menn­ir sjálf­stæðis­menn spurðir um þessa draum­sýn for­manns VG þætti yf­ir­gnæf­andi meiri­hluta þeirra þetta fjar­stæðukennd afstaða ef ekki bein­lín­is óhuggu­leg.

Þá mun vara­formaður Sam­fylk­ing­ar einnig hafa verið í hópi út­val­inna heiðurs­gesta. Sam­fylk­ing­ar­for­yst­an kall­ar barn sem kona geng­ur með „frumuklasa“ allt að fæðingu eins og fram hef­ur komið.

Varla er hægt að kenna vali á heiðurs­gest­um í þessu af­mæli um það hversu illa sam­kund­an var sótt, þótt vor­sól­in blíða léti sitt ekki eft­ir liggja og ein­hverj­ir hoppu­kastal­ar til taks,“ bætir hann við.

Vissulega megn óánægja í flokknum

„En af hverju þurfti að læðast með veggj­um með þetta af­mæli? Það er vissu­lega megn óánægja í flokkn­um og þá ekki síst meðal kjós­enda hans og hugs­an­legra kjós­enda með óskilj­an­lega fram­göngu flokks­ins í orkupakka­mál­inu, þar sem hik­laust er byggt á blekk­ing­um, sem raun­ar eru fjarri því að vera lofs­verðar,“ bætir ritstjórinn við og nefnir þessu til staðfestingar fjölda aðsendra greina í blaðinu, sem hafi verið hófstillt­ar og mál­efna­leg­ar.

Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins og fv. forsætisráðherra.

Nefnir hann sérstaklega í þeim efnum grein Jóns Hjaltasonar í Háspennu, sem Viljinn sagði frá á dögunum, og vakti mikla athygli. Segir Davíð hana hafa verið óvænta; hárbeitta og hitta beint í mark. Segir hann Jón tala beint til forystu Sjálfstæðisflokksins í greininni, en þar sagði hann meðal annars:

„Ég velti fyr­ir mér hvort ekki væri far­sælla að þið færuð frá flokkn­um en að flokk­ur­inn fari frá ykk­ur.“

„Mér finnst hún hrikaleg“

Davíð skrifar ennfremur:

„Það hringdi pýðileg­ur áskrif­andi, en það má segja um þá alla, dag­inn sem grein Jóns birt­ist. Hún bað um sam­tal við þann sem þetta rit­ar. „Hvað finnst þér um grein Jóns í morg­un?“ „Meira máli skipt­ir hvað þér þykir,“ sagði rit­stjór­inn. „Mér finnst hún hrika­leg.“ „Og hvað þykir þér hrika­leg­ast við hana?“ „Hún er svo sönn. Hrika­lega sönn. Og það sem enn lak­ara var að ég sem fylg­ist ekk­ert mjög vel með gat í sjón­hend­ingu bætt fjölda atriða við þenn­an lista.“

Miðað við sam­ræmd­ar árás­ir sem leyna sér ekki og spuna­meist­ar­ar halda utan um og Jón nefn­ir í upp­hafi sinn­ar grein­ar er rétt að taka fram að rit­stjór­ar Morg­un­blaðsins hafa ekk­ert heyrt um stefnu eða rök­stuðning þing­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins. Morg­un­blaðið er borg­ara­legt blað og þótt það lúti ekki fjar­stýr­ing­um utan úr bæ frá flokk­um eða ein­stak­ling­um læt­ur að lík­um að blaðið ætti oft­ar en ekki að geta átt góða sam­leið með flokkn­um ef hann er sjálf­um sér sam­kvæm­ur og heill í fögr­um fyr­ir­heit­um sín­um.

Hvað orkupakka­málið varðar gat eng­inn ætlað annað. Lands­fund­ur flokks­ins hafði lagt lín­una: „Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hafn­ar frek­ara framsali á yf­ir­ráðum yfir ís­lensk­um orku­markaði til stofn­ana Evr­ópu­sam­bands­ins.“ Nú reyna menn með einkar aumu og satt best að segja al­gjör­lega óboðlegu yfir­klóri, langt fyr­ir neðan sína virðingu, að láta eins og al­mennt hjal, sem verið hef­ur í al­menn­um yf­ir­lýs­ing­um fund­ar­ins og einskis getið við af­greiðslu þess hafi eytt fyrr­nefndri ákvörðun með göldr­um.

Þess­ir klaufa­legu koll­hnís­ar hóf­ust þó ekki fyrr en á loka­metr­un­um. En sjálf­stæðis­menn töldu ekki ástæðu til að ótt­ast.

Lands­fund­ar­ákvörðunin lá fyr­ir og sjálf­ur formaður flokks­ins hafði í áheyrn alþjóðar úr ræðustól Alþing­is tekið af öll tví­mæli vorið 2018 og aldrei gefið til kynna að hann myndi snú­ast í sams kon­ar hring og hann gerði í Ices­a­ve forðum, svo flokks­menn undruðust og horfðu hrygg­ir á,“ skrifar Davíð Oddsson ennfremur í Reykjavíkurbréfi sem sætir tíðindum í íslenskum stjórnmálum, svo vægt sé til orða tekið.