Helgablaðið

Össur segir Fréttablað Helga Magnússonar tromma upp framboð Þórdísar.

Andrés Magnússon, fjölmiðlarýnir Viðskiptablaðsins og Sjálfstæðismaður með stóru essi, er getspakur maður þegar kemur að stjórnmálum og fjölmiðlum. Hann hefur eins og fleiri (til dæmis við hér á Viljanum) velt fyrir sér kaupum Helga Magnússonar fjárfestis og Viðreisnarmanns á helmingshlut í Fréttablaðinu.

Í fjölmiðladálki Viðskiptablaðsins á fimmtudag var fjallað um óvænta ráðningu Davíðs Stefánssonar sem ritstjóra Fréttablaðsins:

„Nú eru tvær vikur síðan Davíð var ráðinn á Fréttablaðið og fjölmiðlarýnir nánast viðþolslaus eftir að fyrsti leiðarinn eftir hann birtist. Hann hlýtur þó að koma og þá mun erindi Helga með kaupunum eflaust skýrast.

Því skal hér spáð, alveg ókeypis, að fyrsti leiðari Davíðs fjalli um eitthvað sem stendur hjarta Helga nærri.“

Svo skemmtilega vill til, að samdægurs birtist fyrsti leiðari Davíðs í Fréttablaðinu. Og sjá! Spádómur Andrésar rættist, því leiðarinn fjallaði um tvennt: Ævintýralegt gengi Marels og sveiflótt gengi íslensku krónunnar og nauðsyn þess að skipta um gjaldmiðil.

Helgi er sem kunnugt er, stór hluthafi í Marel og hefur verið þar stjórnarmaður um árabil, er nýhættur í stjórn. Og hann hefur ákaft talað fyrir því að Ísland gangi í Evrópusambandið og taki upp Evruna.

Ekki spillti svo fyrir að í sama blaði birtist aðsend grein eftir fornan félaga Helga og gildan lim í Viðreisn, Ole Anton Bieltvedt, sem hófst á þessum magnþrungnu orðum:

„Helgi Magnússon mun vera einn reyndasti athafnamaður landsins. Fyrst vann hann með ýmsum landsþekktum fyrirtækjum sem endurskoðandi, síðan rak hann allmörg fyrirtæki – svo sem Hörpu – upp á eigin spýtur, og loks varð hann formaður Samtaka iðnaðarins, formaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og sat í bankaráðum og stjórnum ýmissa stórfyrirtækja.“

Það er því ekki að undra, að fjölmiðlapistill Andrésar hafi heitið: Helgablaðið. Það er hverju orði sannara…