Helgi reiður og orðljótur karl með Katrínu Jakobsdóttur á heilanum

Margir eru farnir á taugum í kosningabaráttunni fyrir forsetakjörið eftir tæpar tvær vikur, en enginn virðist jafn lafhræddur og Helgi Magnússon, eigandi DV, sem dælir út pistlum í nafni Svarthöfða, Dagfara eða sem Orðið á götunni (stundum oft á dag) þar sem hann gerir hvað hann getur til að sverta nafn Katrínar Jakobsdóttur fv. forsætisráðherra og finna framboði hennar allt til foráttu.

Undanfarnar vikur hafa birst tugir pistla, allir á sömu lund, á DV-vefnum þar sem ráðist er á Katrínu og er fjöldinn orðinn slíkur, að mörgum blaðamönnum sem þar skrifa þykir orðið nóg um.

Ein þeirra sem þekkir vel til á ritstjórn DV er Kolbrún Bergþórsdóttir, fv. ritstjóri miðilsins og síðar blaðamaður á Fréttablaðinu undir stjórn Helga.

Í pistli sínum um helgina í Morgunblaðinu skrifar hún:

„Á dv.is birtast síðan reglulega sérkennilegir, og vitanlega nafnlausir, pistlar þar sem greina má bitran karlaróm einstaklings, sem þráir að gera sig marktækan í þjóðfélagsbaráttunni, og varar þjóðina ítrekað við Katrínu og því hættuástandi sem skapast myndi kæmist hún á Bessastaði. Það sést langar leiðir að höfundurinn er reiður karlmaður, ekki lengur á besta aldri, sem þráir að tekið sé mark á sér, en er svo orðljótur og reiður, að hann gjaldfellir sig illilega í svo að segja hverri setningu.“