Helgi Seljan í sjónvarpi, útvarpi, sem rithöfundur og á Facebook

Helgi Seljan.

Dr. Lára Magnúsardóttir sagnfræðingur veltir uppi athyglisverðum fleti á svonefndu Samherjamáli og umfjöllun Ríkisútvarpsins um það, í færslu sem athygli hefur vakið á fésbókinni.

„Í Samherjamálinu hafa komið upp deilur sem eru annað hvort milli starfsmanns Ríkisútvarpsins og nýja forstjóra Samherja, eða milli RÚV og Samherja. RÚV þarf að upplýsa almenning um stöðu sína í málinu,“ segir hún.

Lára vekur athygli á því að Helgi Seljan, fréttamaður Kveiks, hafi svarað yfirlýsingum Samherja með færslu á fésbók sinni, nokkurs konar opið bréf til Björgólfs Jóhannssonar, setts forstjóra sjávarútvegsfyrirtækisins.

„Í bréfinu eru engar upplýsingar en í því er hæðnistónn og það er fullt af yfirlæti. Forstjórinn er þar til dæmis ávarpaður með orðinu „gæskur“. Önnur yfirlýsing birtist þá á heimasíðu Samherja, sem í Fréttablaðinu er kölluð „nafnlaus tilkynning“. Eðlilegt er samt að líta á hana sem yfirlýsingu frá fyrirtækinu, eins og annað sem þar er birt. Fyrirtækið hefur þar með tekið afstöðu til þess að ágreiningurinn er við það og varðar ekki persónu Björgúlfs.

Komið er fram að Helgi Seljan hefur sínar skoðanir á ýmsum Samherjamönnum og fyrirtækinu sjálfu, sem má ef til vill segja að færð hafi verið rök fyrir, þótt einnig virðist vera rök fyrir því að fulllangt sé gengið þar um einhver atriði. Bréfið sem fréttamaðurinn sendi nýja forstjóranum er hins vegar af öðrum meiði, enda hefur ekkert komið fram sem bendir til tengsla hans við málefnin sem Helgi Seljan hefur haft til umræðu.

Dr. Lára Magnúsardóttir sagnfræðingur.

Um vinnubrögð RÚV um þetta tiltekna atriði er það að segja að í fyrsta lagi eru það fáránleg vinnubrögð að einn fréttaþáttur fréttastofu Ríkisútvarpsins hafi það sem dagskrárefni að taka viðtal við aðra fréttamenn af sömu fréttastofu. En látum það liggja milli hluta, því að stóra málið er að Helgi Seljan skuli í framhaldinu hafa svarað fyrir fréttir í Ríkisútvarpinu á eigin facebooksíðu og beint þeim að persónu forstjórans. Það tekur út yfir allan þjófabálk hvernig sem á það er litið, en eftir stendur spurningin um það frá hverjum bréfið er í raun. Er það frá Helga Seljan sjálfum, Kveik, fréttastofu RÚV eða Ríkisútvarpinu ohf.?

Fjölmiðlar, aðrir en RÚV, bergmáluðu bréf Helga til Björgúlfs samstundis, sem varð til þess að ég fór inn á facebooksíðu Helga Seljan. Þar kynnir Helgi sig sem svo að hann hafi gengið í skóla í Nevervill Noverhampton og verið fréttamaður hjá Viðtækjaeigendum Íslands, en RÚV er réttilega tilgreint sem vinnustaður hans. Einu sönnu upplýsingarnar um hann á þessari síðu eru sem sagt nafn hans og tengslin við Ríkisútvarpið; þetta virðist vera heimasíða Helga Seljan á RÚV. Meðfylgjandi er mynd af honum með trefil fyrir andlitinu og önnur þar sem hann virðist vera með hestshaus.

Á þessari síðu auglýsir Helgi Seljan fréttaþætti Ríkisútvarpsins, hæðist að forsætisráðherra og seðlabankastjóra, sendir forstjóra opið bréf, birtir tengla á fréttir af Samherjamálinu og facebookfærslur gamla seðlabankastjórans Svein Harald Øygard, eftir hentugleikum. Þannig er þarna til dæmis færsla Øygards sem byrjar á „You couldn´t have made this shit up“ og frétt með fyrirsögn um að stjórnendur Seðlabankans ættu að skammast sín. Helgi Seljan gagnrýnir sömuleiðis aðra fjölmiðla og fjölmiðlamenn harðlega þegar þeir taka ekki mark á hverju orði sem frá honum kemur. T.d. blaðamann Morgunblaðsins sem hann hefur sagt reyna að „föndra upp bjarghring utan um nýjan forstjóra Samherja“. En hann birtir ekki færslu Øygards þar sem hann segir að skylt sé að gera ráð fyrir sakleysi þar til sekt sannast.“

Lára segist skrifa færsluna þar sem mikilvægt sé að almenningur fái úr því skorið hvort Helgi Seljan í útvarpinu, Helgi Seljan rithöfundur og Helgi Seljan á facebook sé sami aðili og Helgi Seljan í sjónvarpinu.

„Ef ekki, telur ritstjóri Kveiks og fréttastjóri RÚV viðurkvæmilegt að fréttamaður sem fjallar um fyrirtæki í fréttaþáttum sendi forstjóra þess bréf á eigin vegum? Annars þarf að svara því hvort Helgi Seljan komi fram sem fulltrúi RÚV hvarvetna þar sem hann tjáir sig um Samherjamálið? Á meðan ritstjóri Kveiks og fréttastjóri RÚV þegir virðist ástæða að telja að svo sé.

Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja.

Var bréfið til hins nýja forstjóra Samherja þá frá RÚV?

Ólíkt því sem gildir um háskólafólk og vísindamenn, sem eru frjálsir í rannsóknum sínum og bera sjálfir ábyrgð á þeim, starfa fjölmiðlamenn undir ritstjórn sem ber ábyrgð á efninu sem birt er í fjölmiðlinum. Fréttastofa RÚV á vissulega að vera frjáls en þó aðeins til að vinna tiltekin verk. Þess vegna eru ritstjórar Kveiks og fréttastofu RÚV forsvarsmenn Helga Seljan um það sem viðkemur Samherjamálinu og það er þeirra að setja starfsfólki sínu mörk um viðeigandi umfjöllun, hvar, hvernig og hvenær hún birtist. Standa ritstjórar Kveiks og fréttastofu RÚV við að hér hafi faglega verið staðið að verki? Ef bréfið til forstjórans er ekki frá RÚV þarf að svara því hvort yfirmenn Helga Seljan í starfi telji viðeigandi, viðunandi og ásættanlegt að hann haldi úti málflutningi af því tagi sem hann gerir utan ritstýrðrar dagskrár?

Flestum birtist málið þannig að maðurinn leiki einfaldlega lausum hala með efnivið stærsta fréttaefnis ársins, en styðjist við tengslin sem hann hefur við fréttastofu RÚV. Og þá vaknar spurningin um álit stjórnar RÚV á á því að opinberlega fari fram rifrildi fréttamanns við fulltrúa „fréttaefnis“, fremur en að áherslan sé á þjónustu við almenning sem á heimtingu á því að fá sem ýtarlegastar skýringar á jafnstóru máli og þetta er. Þetta snýst nefnilega um lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins og skyldur þess við almenning, en alls ekki um Helga Seljan,“ bætir hún við.

Lára segist að lokum hafa fremur lítinn áhuga á Samherjamálinu, en þeim mun meiri áhuga á þjóðfélagsumræðu og fréttamennsku. Auk þess sé hún stuðningsmaður góðs Ríkisútvarps.