Viljinn skýrði fyrir helgi frá niðurstöðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins vegna kvörtunar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að ranglega hafi verið boðað til fundar í samgöngu- og skipulagsráði borgarinnar hinn 15. ágúst í fyrra og fundurinn því ólögmætur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfðu kvartað yfir fundarboðinu og gert alvarlegar athugasemdir á fundinum sjálfum. Sögðu þeir ekki hægt að taka lögmætar ákvarðanir á fundi sem ekki hefði verið boðað til með löglegum hætti. Fór Baldur Borgþórsson, fulltrúi Miðflokksins, fram á að honum yrði frestað. Meirihlutinn varð ekki við því, hafnaði með öllu að fundurinn væri ólöglegur, og því ákváðu fulltrúar Sjálfstæðisflokkins og Miðflokksins að ganga út af fundinum og leita réttar síns.
Þetta er „hugsanlega vanhugsaðasta og vandræðalegasta upphlaup sem ég hef orðið vitni að á mínum átta ára ferli í pólitík,“ sagði þá Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Lýsti hún því yfir að fundurinn væri fullkomlega löglegur og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hefðu með framgöngu sinni bæði brotið trúnað og skrópað í vinnunni til að fá mynd af sér í fjölmiðlum.
Undir þetta tók formaður ráðsins, Píratinn Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, sem talaði um leikrit fyrir fjölmiðla, en vísaði jafnframt til þess að lögfræðingar borgarinnar væru á einu máli um lögmæti fundarins, bæði á sviðinu sjálfu og einnig í miðlægri stjórnsýslu, þ.e. í Ráðhúsinu.
(Og það þýðir ekkert að kenna Vigdísi Hauksdóttur um það, þótt á þetta sé bent).
Nú er auðvitað komið í ljós að bæði borgarfulltrúarnir og lögmenn borgarinnar fóru villur síns vegar. Öll stóryrðin reyndust innihaldslaust gaspur og ef það er rétt, að lögmenn borgarinnar hafi verið með í ráðum, þá er þarna komið enn eitt dæmið um sleifarlag í stjórnsýslu borgarinnar.
(Og það þýðir ekkert að kenna Vigdísi Hauksdóttur um það, þótt á þetta sé bent).
Staðreyndin er sú, að nú þurfa bæði Kristín Soffía og Sigurborg Ósk að gera hreint fyrir sínum dyrum. Biðja kjósendur í Reykjavík og borgarfulltrúa minnihlutans afsökunar á framgöngu sinni og ummælum. Jafnframt þarf borgarritarinn Stefán Eiríksson að gera slíkt hið sama, enda ráðuneyti sveitarstjórnarmála búið að komast að þeirri niðurstöðu, að sveitarfélagið undir hans faglegu stjórn hafi brotið lög. Jafnframt þarf Ráðhúsið að birta allar þær lagalegu röksemdir sem haldið var fram í málinu, svo unnt sé að koma réttum lagaskilningi á í stjórn borgarinnar til framtíðar.
Þetta er alveg nauðsynlegt að gera. Nóg er nú vantraustið samt í garð borgarstjórnar Reykjavíkur. Og þar er ekki um að kenna framgöngu kjörinna fulltrúa, eins og embættismaðurinn Stefán Eiríksson reyndi að halda fram, heldur því að borgarbúar hafa nú séð trekk í trekk, að borgin virðir ekki lög og reglur, reynir svo að hylma yfir og þagga niður þegar óþægileg mál koma upp og kenna öðrum um.
Það bara gengur ekki lengur.