Hófstillt háflug flugmálaráðherrans

Áhugamenn um samsæriskenningar í pólitík tóku gleði sína í vikunni þegar Fréttablaðið fjallaði í mola á leiðarasíðu um misgott gengi formanns Framsóknarflokksins og varaformanns flokksins.

Af molanum mátti ráða að Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, væri á talsverðu pólitísku flugi en hið sama yrði ekki sagt um Lilju Dögg Alfreðsdóttur sem væri upptekin í ólgu og átökum í menntamálaráðuneytinu og tiltekinn hópur stjórnenda þar væri ákveðinn í að bíða ráðherrann af sér, eins og það var orðað.

Stjórnmálaspekingar vita sem er, að slíkir molar verða hvorki til af sjálfu sér né í pólitísku tómarúmi. „Þetta er viðvörunarblys,“ sagði einn lífsreyndur framsóknarmaður. Sagði hann það ættað úr herbúðum Sigurðar Inga sem teldu Lilju spila fullmikið sóló í stjórnmálunum og skyggja um of á formann sinn.

Í vikunni var birt ný skoðanakönnun MMR sem sýndi bætta stöðu Sjálfstæðisflokks en Framsóknarflokkinn í sögulega lágu fylgi, eða með heil 6,8%. Mælist flokkurinn iðulega mun lægri en Miðflokkurinn, sem varð til eftir harðvítug átök á flokksþingi Framsóknarflokksins fyrir nokkrum árum, eins og menn muna.

Hafði Sigurður Ingi þá skorað Sigmund Davíð Gunnlaugsson á hólm með þeim rökum að hann væri miklu líklegri til að tryggja flokknum fylgi og áhrif.

„Þetta er afar hófstillt háflug hjá flugmálaráðherra,“ bætti framsóknarmaðurinn við og spurði hvað Fréttablaðið hefði eiginlega fyrir sér í þeim efnum að Sigurður Ingi væri að sækja í sig veðrið, en Lilja Dögg ekki.