Horfið verði frá stefnu öfgasamtaka um galopin landamæri

Dr. Ólafur Ísleifsson hagfræðingur og fv. alþingismaður.

Líflegar umræður spunnust á fundi málfundafélagsins Frelsi og fullveldi  í þétt setnum sal á veitingahúsinu Catalínu mánudaginn 15. janúar sl. Yfirskrift fundarins var Hingað og ekki lengra – Verjum landamærin. Frummælendur voru Jón Magnússon og Ólafur Ísleifsson fyrrverandi alþingismenn.

Í lok fundar var samþykkt einróma hjálögð ályktun fundarins. Þar kemur fram að gengið hafi verið of nærri innviðum landsins, skólum, heilbrigðisstofnunum og velferðarkerfi og því ekki forsendur fyrir frekari innflutningi hælisleitenda sem beri að stöðva. Gagnrýndur er hóflaus fjáraustur af almannafé til málaflokks hælisleitenda. Gerð er krafa um að horfið verði frá stefnu öfgasamtaka um galopin landamæri heldur verði þau varin. Hælisleitendur sem fengið hafa hæli í öðru landi fái umsvifalausa frávísun og flugfélögum verði gert að leggja fram farþegaskrár sem skilyrði fyrir lendingarleyfi hér á landi.

Ályktun um stefnubreytingu í málefnum hælisleitenda er birt í heild hér að neðan:

„Málfundafélagið FRELSI OG FULLVELDI hafnar ríkjandi stefnu stjórnvalda í málefnum hælisleitenda sem reist er á þeirri forsendu að landamæri landsins standi galopin að kröfu öfgasamtaka og fylgjenda þeirra. Málfundafélagið vill beita sér fyrir því að full stjórn sé á landamærunum í samræmi við fullveldi þjóðarinnar og ákvörðunarvald um hverjir komi hingað til lands. 

Málfundafélagið hafnar hóflausum fjáraustri til málaflokks hælisleitenda. Málfundafélagið telur að gengið hafi verið of nærri innviðum samfélagsins í skólum og heilbrigðisstofnunum. Öngþveiti ríkir í húsnæðismálum. Engar forsendur eru því til áframhaldandi innflutnings hælisleitenda. Málfundafélagið fordæmir óraunhæfar hugmyndir um stórfelldan innflutning á fólki frá framandi menningarsvæðum á grundvelli svokallaðrar fjölskyldusameiningar.

Málfundafélagið vill ná markmiðum í þessu efni með því að hælisleitandi sem fengið hefur alþjóðlega vernd í öðru ríki geti ekki sóst eftir slíkri vernd hér á landi. 

Landamærin verði varin með því að skylda flugfélög til að leggja opinberum aðilum til farþegaskrár og vegabréfsupplýsingar. Lendingarleyfi hér á landi verði því aðeins veitt að þessari skyldu sé fullnægt. Þeim farþegum sem ekki uppfylla skilyrði til að koma til landsins verði vísað frá á flugvelli. 

Málfundafélagið vill að hælisleitendastefna taki mið af reynslu nágrannaþjóða um aðlögun að innlendu samfélagi og að forðast verði að endurtaka mistök sem þær glíma nú við afleiðingar af. 

Opinn fundur málfundafélagsins haldinn á veitingahúsinu Catalínu í Kópavogi 15. janúar 2024 krefst þess að íslenskar reglur verði samræmdar því sem gerist í nágrannalöndum í Evrópu og stöðvaður verði innflutningur hælisleitenda.“