Hvað á þetta stjórnleysi að ríkja lengi enn?

Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri. / Skjáskot af rúv.

Af mörgu er að taka þegar rætt er um verkleysi ríkisstjórnarinnar, eins og kunnugt er. Hún er í reynd rekin eins og starfsstjórn eða minnihlutastjórn, þar sem aðeins þverpólitísk samstöðumál eru afgreidd seint og um síðir, en allt annað situr á hakanum.

Yfirvofandi er orkuskortur sem varðar við þjóðaröryggi og annað dæmi um ákvarðanafælni sem varðar beinlínis öryggi þjóðarinnar og segir af algjörlega óboðlegu ástandi, er frásögn Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann kvartar yfir því að „hending ein“ ráði því hvort brotamenn séu stöðvaðir á landamærunum við komuna til Íslands, þar sem kerfisbundið landamæraeftirlit sé ekki til staðar.

Ástæðan er sú að fjölmörg erlend flugfélög, alls tíu talsins, neita að afhenda íslenskum stjórnvöldum lista yfir þá farþega sem koma til landsins með þeim. Og þess vegna fær lögreglan ekki upplýsingar til að vinna úr um þá sem eru að koma til landsins, jafnvel þótt lög kveði skýrt á um að flugfélögum sé skylt að afhenda lögreglu upplýsingar um bæði farþega og áhöfn.

Og Úlfar lýsir aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar vel: „Það sem verra er að svona hefur ástandið verið mjög, mjög lengi án eðlilegra viðbragða af hálfu íslenskra stjórnvalda.“

Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál. Og algjörlega óforsvaranlegt að svona hafi verið gengið fram. Hvað þá „mjög, mjög lengi“. Heldur einhver að flugfélög á leið til Bandaríkjanna, svo dæmi sé tekið, kæmust upp með að afhenda ekki farþegalista sína?

Svona ástand verður þegar öllum er ljóst að stjórnvöld fylgja ekki eftir neinni meginstefnu og skilaboðin eru út og suður. En svo verður fólk óskaplega undrandi þegar í óefni er komið og ráðherrar loksins viðurkenna að innviðirnir séu sprungnir. Hvað á þetta stjórnleysi að standa lengi enn?