Hvað ætlast bakhjarlar Viðreisnar fyrir með Fréttablaðið og Hringbraut?

Jón Þórisson ritstjóri Fréttablaðsins.

Hinn 3. júní sl. sagði Viljinn frá vendingum í íslenskum fjölmiðlamarkaði með frétt sem vakti mikla athygli.

Þar sagði meðal annars:

„Með óvæntri ráðningu Davíðs Stefánssonar í stól ritstjóra Fréttablaðsins fyrir helgi hafa orðið til miklar samsæriskenningar um að aðilar tengdir Viðreisn og fjölmiðlinum Hringbraut séu komnir inn í eigendahóp blaðsins, eða á leiðinni þangað.

Eru þá nefndir til sögunnar aðilar á borð við Helga Magnússon og Sigurð Arngrímsson, sem báðir eru fjársterkir mjög og hafa einnig látið sig stjórnmál varða á bak við tjöldin.“

Tveimur dögum síðar var svo tilkynnt opinberlega að félag á vegum Helga Magnússonar hefði keypt helming hlutafjár í Torgi ehf. sem á og rekur Fréttablaðið, frettabladid.is, markadurinn.is, tímaritið Glamour og tengda starfsemi.

Sama dag var rætt við Helga á vefmiðlinum Stundinni og hann spurður um tengslin við Hringbraut og hvort hann hefði fjármagnað rekstur hennar, eins og þrálátur orðrómur væri um.

Helgi svaraði að slíkt sé af og frá, hann hafi ekki sett krónu í Hringbraut, hvorki fyrr né síðar. „Ég kannast við þá þvælu. Ég á ekki krónu í Hringbraut. Þessi saga er búin að vera lífseig, en hún er ekkert nema það: saga og ekki sönn. Einhverjir sem er frekar lítið um mig gefið, og mína samferðamenn, hafa verið að halda þessu á lofti, en þetta er ekki rétt.“

Svo mörg voru þau orð.

Nú eru liðnir nokkrir mánuðir og í dag var endanlega staðfest, að orðrómurinn sem Helgi Magnússon sagði í júní að væri af og frá var allt annað en það, heldur réttur og í samræmi við staðreyndir.

Ólöf Skaftadóttir, einn besti blaðamaður landsins, er hætt sem ritstjóri og í hennar stað er ráðinn sem ritstjóri og ábyrgðarmaður Jón Þórisson lögfræðingur og fv. bankamaður. Hann mun einnig ganga inn í eigendahóp fjölmiðilsins.

Jafnframt var tilkynnt um sameiningu Fréttablaðsins og Hringbrautar og að þeir verði tveir stærstu hluthafar hinnar nýju fjölmiðlasamsteypu, Helgi og Sigurður Arngrímsson fjárfestir.

Rétt eins og kom fram að til stæði í Viljanum í byrjun júní sl.

Ljóst er að stjórnmálaflokkurinn Viðreisn hefur þannig styrkt stöðu sína gífurlega með óbeinum tengslum við útbreiddasta blað þjóðarinnar.

Og jafnframt er ljóst, að Helgi Magnússon er nú orðinn einn allra áhrifamesti viðskiptamaðurinn hér á landi.

Sagan segir að áhrifamennirnir að baki Viðreisnar vilji nú setja allt á fullt varðandi umræðunni um aðild að Evrópusambandinu, upptöku Evru og aukið frelsi í viðskiptum, bæði hér innanlands og á alþjóðavettvangi.

Spennandi og fróðlegt verður að fylgjast með þróun mála.