Hæstaréttarlögmaðurinn Einar S. Hálfdanarson, sem fylgt hefur Sjálfstæðisflokknum að málum í áratugi, segir enga mannkosti felast í geðþóttaákvörðunum þar sem tilfinningar ráða á stað þess að fara að lögum.
Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag gagnrýnir hann ríkisstjórnina fyrir stefnuleysi í málefnum hælisleitenda og segir að nú snúist réttlætið um einstaklingsbundin góðverk. T.d. að flytja nokkra samkynhneigða Afríkumenn til landsins og klappa sjálfum sér á bakið, ekki að beita sér af alefli fyrir samkynhneigða í Afríku. Til þess hafi Evrópa þó alla burði.
„Að veita dvalarleyfi hvað sem reglum líður er það nýjasta hjá vinstra fólki. Hvenær á að fara að lögum og alþjóðasamningum? Er það valkvætt? – Já, segja Viðreisn og aðrir vinstrimenn. Nú er mottóið að heimila börnum landvist, einkum afmælisbörnum. Jafnvel þeim börnum sem þegar hafa fengið hæli í Evrópu! Þó dregur enginn í efa þátt glæpahringa í barnasmyglinu til Evrópu, ekki nokkur maður. Samt er ýtt undir það. Mbl.is og aðrir öfgavinstrifjölmiðar látast ekkert vita. Stöð 2, RÚV, Egill og Kolbrún ekki heldur,“ segir hann og spyr: „Hvað er að Íslendingum?“
Einar veltir fyrir sér hvers vegna tímabundið landamæraeftirlit sé ekki löngu hafið hér á landi. Ólöglegur innflutningur fólks sé löngu kominn úr böndunum.
„Svokölluðum hælisleitendum, umsækjendum um alþjóðlega vernd, á Íslandi fjölgar með degi hverjum. Og fiskisagan flýgur um kjánana á Íslandi. Ásóknin hingað er margföld á við ásóknina í að flytjast til Danmerkur. Danir hafa ekki fjármuni í að taka við öllum sem þangað vilja. En þá hafa Íslendingar!
Löglegur innflutningur er líka yfir viðráðanlegum mörkum meðan atvinnuástand fer versnandi. Þegar svo er komið má Ísland sem aðildarríki að EES grípa til tímabundinna ráðstafana. Er ríkisvaldið á Íslandi á sjálfstýringu? Er afstaðan sú að þetta reddist? Danir og Svíar hófu landamæravörslu síðla árs 2015 við langtum betri aðstæður en eru nú á Íslandi. Þeir nefndu ástandið með réttu neyðarástand. Hvernig stendur á að Íslendingar vita allt betur en aðrar þjóðir?“
Kostnaðurinn engin eins skiptis útgjöld
Hann segir að viðurkenndur kostnaður vegna hælisleitenda hafi slagað í fjóra milljarða í fyrra. Nágrannaþjóðir okkar viti að kostnaðurinn sé til framtíðar og aukist bara og aukist. Þetta séu engin eins skiptis útgjöld.
„Kær mágur minn á besta aldri lést frá stórri fjölskyldu fyrir skömmu. Hann var veikur fyrir, en banameinið var plássleysi á bráðamóttöku. Nú stendur upp á svilkonu mína að greiða skuldirnar og framfleyta fjölskyldunni. Kennarar og foreldrar í Vesturbænum munu ekki láta sig málið varða. Logi mætir ekki með hálsklútinn (og verður ekki saknað). Biskuparnir láta sér fátt um finnast. Í landinu sem krefur skattgreiðendur um hæstu skatta í heimi telst þetta eins og hvert annað hundsbit. Það kemst ekki á vinsældakvarðann,“ bætir hann við.
Einar leggur að lokum nokkrar spurningar fyrir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ráðherra innflytjendamála, að gefnu tilefni, eins og hann orðar það:
- Hvenær telur ráðherrann að efni séu til að grípa til landamæravörslu, þ.m.t. að krefja flugfélög um að sinna henni á brottfararstað líkt og ýmsar þjóðir gera?
- Hvað er áætlað heildarkostnaður íslenska ríkisins af svkölluðum hælisleitendum á ári verði árin 2020-2025 miðað við samsvarandi þróun og verið hefur í fjölda þeirra?
- Hefur ráðherrann haft samráð við heilbrigðisráðherra um hver sé geta bráðaþjónustunnar til að taka við auknum fjölda útlendinga þessi sömu ár?
- Reikna verður með að öllum útlendingum verði tryggð lágmarks ellilaun þótt þeir hafi ekki greitt í lífeyrissjóð nema skamman eða engan tíma. Hver er áætlaður framtíðarkostnaður næstu 30 ára vegna þessa?
- Eru nú þegar farin að myndast innflytjendahverfi í Reykjavík þar sem félagslegum vandamálum fer fjölgandi?
- Eru einhver dagheimili, skólar eða félagsmiðstöðvar í Reykjavík þar sem íslenska er ekki notuð sem talmál?
„Þessar eru einungis nokkrar af spurningum sem óhjákvæmilega vakna vegna þess að málaflokkurinn virðist vera í fóstri hjá þeim sem síst skyldi. M.a.s. flokksnefna iðjuleysingja á þingi virðist hafa meiri völd í málinu en ábyrg yfirvöld. – Ráðherra, reddast þetta samt?“