Hvað er það sem Bjarni Benediktsson veit?

Um margra mánaða skeið hafa sögur verið á sveimi í samfélaginu um baksvið þess að tveir fjölmiðlar, Stundin og Kjarninn, birtu fréttir um skilaboð samstarfsmanna innan Samherja sem gengið hafa undir nafninu skæruliðadeildin. Fyrst um sinn bárust fregnir af síma sem kynni að hafa verið stolið, svo bættust við ásakanir um að byrlað hefði verið fyrir eigandanum, Páli Steingrímssyni skipstjóra. Sögur þessar féllu að mestu í skuggann af fréttaflutningi af spjalli skæruliðadeildarinnar um aðskiljanlegustu málefni og viðbrögð við þeim.

Seint síðasta sumar og fram á haust og vetur tóku sögur þessar á sig frekari mynd. Haldið var fram að sími skipstjórans hefði verið tekinn ófrjálsri hendi meðan hann lá milli heims og helju á sjúkrabeði. Síminn hefði verið opnaður og afritaður af kunnáttumanni og staðsetningarbúnaður símtækisins benti til þess að þetta hefði gerst í Efstaleiti, þar sem eru höfuðstöðvar Ríkisútvarpsins.

Allt var þetta mjög reifarakennt og afgreitt sem ótrúverðugar samsæriskenningar, sem og vangaveltur Páls Vilhjálmssonar kennara á bloggsíðu hans. Hann hefur þó um margra mánaða skeið skrifað af mikilli sannfæringu um málið og gefið sterklega í skyn að sannleikurinn um þátt Ríkisútvarpsins í málinu eigi eftir að skekja samfélagið. Ekki bætti úr skák að flótti virtist skyndilega bresta á í röðum starfsfólks RÚV, þar á meðal tilkynnti fréttastjórinn Rakel Þorbergsdóttir óvænt um starfslok.

En nú þegar fyrir liggur að fjórir fjölmiðlamenn að minnsta kosti hafa réttarstöðu sakbornings vegna lögreglurannsóknar á málinu eru margir farnir að keppast við að lesa blogg Páls aftur í tímann. Fáir trúa því að lögreglunni detti í hug að skella fjölmiðlamönnum á sakamannabekk fyrir að skrifa óþægilegar fréttir eða reyni að fá þá til að upplýsa um heimildarmenn sína. Það er vonlaust verk, það munu þeir aldrei gera og þurfa þess heldur ekki. Og eiga alls ekki að gera. Hvers vegna ættu þeir líka við slíkar aðstæður að hafa réttarstöðu sakbornings en ekki vitnis? Það þarf alls ekki að senda lögreglumenn frá Akureyri suður til Reykjavíkur að spyrja um slíkt.

Athygli vekur að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, kom fram í gærkvöldi og gagnrýndi harkalega fréttaflutning fjölmiðla af málinu, ekki síst Ríkisútvarpsins. Óvanalegt er að Bjarni blandi sér með slíkum hætti í viðkvæm mál sem fátt er enn vitað um og þess vegna hafa strax vaknað spurningar um það hvort Bjarni viti í reynd meira um þessi mál en við hin og hafi þess vegna ákveðið að senda frá sér skýr skilaboð.

Það er margljóst í íslensku réttarfari og alþjóðlegu að fjölmiðlar gerast ekki sekir um glæpsamlegt athæfi með því að skrifa fréttir þótt einhverjum þyki þær óþægilegar eða óviðeigandi. Að fá leynigögn upp í hendur og vinna úr þeim fréttir er alsiða og kallar ekki á lögreglurannsókn. Það er aðeins ef tilteknir fjölmiðlar reynast þátttakendur í því að afla upplýsinga með ólöglegum hætti sem glæparannsókn getur komið til sögunnar.

Það er til dæmis eitt og ekki ólöglegt að fá efni úr símtæki útprentað ef ljóst er að efni þess kann að eiga erindi við almenning. Slíkir gagnalekar verða tíðum og oft stór fréttaefni. Allt annað er að taka við stolinni tölvu eða síma, brjótast inn í tækið og afla upplýsinganna þannig.

Þetta gerðist í Bretlandi fyrir nokkrum árum þegar upp komst að blaðamenn helgarblaðsins News of the World hefðu með skipulegum hætti brotist inn í síma frægðarfólks og aflað sér þannig upplýsinga sem slegið var upp á forsíðu blaðsins. Fjölmargir blaðamenn og yfirmenn voru færðir í yfirheyrslu, sumir í varðhald og fljótlega kom í ljós að athæfið var þaulskipulagt og gert með velþóknun yfirstjórnar. Úr varð mikið hneyksli, svo risavaxið að blaðið sem komið hafði út samfellt frá árinu 1843 og seldist lengi vel meira en nokkurt annað blað í hinum enskumælandi heimi, var lagt niður árið 2011.

Blaðamenn og ritstjóri hlutu fangelsisdóma og aðrir yfirmenn útgáfufélagsins News International, einnar stærstu fjölmiðlasamsteypu heims í eigu Ruberts Murdochs, þurftu að taka pokann sinn. Úr varð álitshnekkir hinn mesti fyrir enska blaðamannastétt og niðurstaða réttarkerfisins var alveg skýr: Það er ekki sama hvernig upplýsinga er aflað og friðhelgi einkalífs gildir líka um þekkt fólk og þá sem fjallað er oft um opinberlega. Blaðamenn hafa ekki leyfi til þess að hakka sig inn í símtæki fólks eða brjótast inn heima hjá því í fréttaleit.

Á þessu stigi máls hefur enginn vissu um að símamálið sem kennt er við skæruliðadeild Samherja nú, hafi nokkra skírskotun til hneykslisins sem felldi News of the World. En óneitanlega vekur athygli að Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, hafi réttarstöðu sakbornings, þar sem það voru Kjarninn og Stundin sem fluttu fréttirnar um skæruliðadeildina. RÚV vísaði aðeins til þeirra frétta í sinni umfjöllun eins og margir aðrir fjölmiðlar. Af hverju ætti lögreglan að vilja þýfga hana um heimildarmenn um fréttir sem hún aldrei birti? Eru fleiri núverandi eða fyrrverandi starfsmenn RÚV einnig með slíka réttarstöðu?

Í þessu ljósi er mikilvægt að sannleikurinn komi fram sem fyrst og blaðamenn, sem aðeins voru að vinna vinnuna sína, verði hreinsaðir af grun um glæpsamlegt athæfi. Þeir eru saklausir uns annað kemur í ljós, það ber að árétta. Því skal ekki trúað að Ríkisútvarpið (sem stýrt af fyrrverandi lögreglustjóra) hafi komið að því að taka við stolnum síma, opna hann og afrita, og koma efninu í umferð á öðrum miðlum. Eða að leggja á ráðin um slíkan verknað. Slíkt er eiginlega óhugsandi, enda væri þá um að ræða einstæðan atburð í íslenskri fjölmiðlasögu og risafrétt á alþjóðlegan mælikvarða sem án efa hefði gífurlegar afleiðingar í för með sér.

Það getur bara ekki verið.