„Nú þegar þriðji orkupakkinn er kominn í átakaferil hefst sama umræðan – almenningur, stjórnmálamenn og lögfræðingar skiptast í hópa. Hóparnir, jámenn og mótmælendur pakkans, lofa álit lögfræðinganna Friðriks Árna Friðrikssonar og Stefáns Más Stefánssonar. Og báðir aðilar vitna í álit þeirra sínum málstað til staðfestingar. Báðir hóparnir vilja að stjórnarskráin njóti vafans. Sæstrengirnir eru stóra málið til að rafmagnið verði markaðsvara, þar er átakapunktur þótt þeir séu fleiri. Bissnessmenn hér líta á rafmagnið og vatnið sem markaðsvöru sem einstaklingar eigi að höndla með, ekki ríkið, hafa greinilega lagst á lögspekingana og reyndar segja kokhraustir þingmenn frá því. Því í lok fjörutíu og fimm blaðsíðna úttektar um málið segja Friðrik Friðriksson og Stefán Már að þeir telji að pakkinn stangist á við stjórnarskrána. En svo koma lokaorð lögfræðinganna með veikri lausn sem trúlega stenst ekki fyrir dómstólum.“
Þetta segir Guðni Ágústsson, fv. formaður Framsóknarflokksins og ráðherra, í greiní Morgunblaðinu í dag. Hann bætir við að þetta mikla og skýra lögfræðilega álit sé haldið veikum lokaorðum sem standast ekki, því sæstrengsmennirnir muni síðar hrinda ályktun Alþingis úr vegi með málsókn erlendis.
„Þeir munu líka hrinda þjóðareigninni á Landsvirkjun, henni verður skipt upp og hlutir hennar seldir. Lagaspekingarnir segja: „Möguleg lausn gæti falist í því að þriðji orkupakkinn verði innleiddur í íslenskan rétt með lagalegum fyrirvara um að ákvæði hans um grunnvirki yfir landamæri, t.d. 8. gr. reglugerðar nr. 713/-2009, öðlist ekki gildi, enda er slíkum grunnvirkjum ekki fyrir að fara hér á landi.“ Þetta þýðir víst að sæstrengirnir verði aðeins lagðir ef Alþingi lögfesti það. Þessari lausn, ef lausn skyldi kalla, lýkur svo með orðum þeirra: „Þessi lausn er þó ekki gallalaus.“ Þarna bregða þeir fyrir sig Ara fróða „hvað sem missagt er í fræðum þessum, þá er skylt að hafa það heldur er sannara reynist“. Þetta er fullkominn lögfræðilegur fyrirvari. Þeir þvo hendur sínar eins og Pílatus forðum, fría sig af ákvörðun Alþingis í framtíðinni.
Þessi lokaorð lögspekinganna eru þjáningarfull en þau duga þó til að efasemdarmennirnir í þingflokki Sjálfstæðisflokkins taki upp gleði sína enda vita þeir að flokkurinn á svo mikið undir markaðshyggjunni og duglega fólkinu. Nú skal málið keyrt áfram og spurningin er, hvað gera framsóknarmenn og vinstri grænir? Ganga þeir í humátt, hljóðir og prúðir, og vona að flokksmenn gleymi strax svona undanslætti frá stefnu flokkanna. Gáið að ykkur, Sigurður Ingi Jóhannsson og Lilja Alfreðsdóttir. Þeir flokkar sem eru í mestri andstöðu við orkupakkann eru stjórnarflokkarnir, um 90% flokksmanna allra flokkanna eru á móti honum. Þegar EES-samningurinn var undirritaður 1993 sögðu menn það sama: Við erum með belti og axlabönd, við eigum okkar auðlindir áfram, samningurinn snýst ekki um sjávarútvegsauðlindina, hann snýst ekki um orkuauðlindina, hann snýst ekki um landbúnaðarauðlindina. Hvað þá allt ferska vatnið sem nú er horft á öfundaraugum. Nokkrum árum síðar var landbúnaðurinn kominn undir EES og matvælalöggjöf þess, hráa kjötið o.fl., og er enn í átakaferli. Yfirþjóðlegt vald sýnir sig og brotið er á stjórnarskránni aftur og aftur.
Hví er barist um að kaupa auðlindajarðir?
Hvað líða mörg ár þar til þeir innlendu og erlendu auðmenn, sem nú eru að kaupa upp landið og ætla að selja orkuna, virkjunarréttinn og vatnið eins og epli og appelsínur, hafa kært hið íslenska ákvæði um sæstreng? EES-samningurinn opnaði fyrir jarðakaup útlendinga og sumir segja að jarðalög, sem undirritaður bar ábyrgð á sem landbúnaðarráðherra, hafi opnað enn frekar leið þeirra. Jarðakaup á Íslandi voru leyfð útlendingum með EES-samningi. Réttur þeirra var innleiddur í EES. Strax um aldamótin 2000 fór eftirlitsstofnun ESA að krefjast breytinga á jarðalögum frá 1976. Þau stönguðust á við EES-samninginn. Það var ekkert íslenskt ákvæði til. Til að forðast lögsókn og skaðabætur varð að breyta jarðalögum og jafna leikreglurnar.
Alþingi ber nú að grípa inn í jarðakaup útlendinga því heilu héruðin eru að falla auðmönnum, erlendum og innlendum, í skaut. Hvers vegna? Það eru átökin um yfirráðin á orku, virkjunum, vatni og landi. Brussel-valdið er búið að hlæja sig máttlaust að þessu séríslenska ákvæði sem oft hefur verið nefnt áður. Það er notað til heimabrúks á Íslandi, segja þeir. Sannleikurinn er þessi, utanríkisráðherranum verður ekkert gagn af beltinu og axlaböndunum, buxurnar eru nefnilega úr híalíni. Ég hvet bæði Alþingi og ríkisstjórn til að skoða málin af gaumgæfni, hverjar verða afleiðingarnar af samþykkt orkupakkans? Og við eigum þann rétt sem þjóð að hafna því að taka pakkann upp, það liggur fyrir í EES-samningi.
Nú kallar Þorsteinn Pálsson, fv. forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, kúnstir utanríkisráðherranas „lofsverðar blekkingar“ og bætir við: „Hann á fullt lof skilið fyrir vikið.“ Svona breytast viðhorf manna þegar þeir hafa tekið trúna. Ólíkt hafast þeir að nú, Þorsteinn og Jón Baldvin,“ bætir Guðni Ágústsson við.