Hvað gera fram­sókn­ar­menn og vinstri græn­ir?

Guðni Ágústsson fv. landbúnaðarráðherra.

„Nú þegar þriðji orkupakk­inn er kom­inn í átaka­fer­il hefst sama umræðan – al­menn­ing­ur, stjórn­mála­menn og lög­fræðing­ar skipt­ast í hópa. Hóp­arn­ir, já­menn og mót­mæl­end­ur pakk­ans, lofa álit lög­fræðing­anna Friðriks Árna Friðriks­son­ar og Stef­áns Más Stef­áns­son­ar. Og báðir aðilar vitna í álit þeirra sín­um málstað til staðfest­ing­ar. Báðir hóp­arn­ir vilja að stjórn­ar­skrá­in njóti vaf­ans. Sæ­streng­irn­ir eru stóra málið til að raf­magnið verði markaðsvara, þar er átaka­punkt­ur þótt þeir séu fleiri. Biss­ness­menn hér líta á raf­magnið og vatnið sem markaðsvöru sem ein­stak­ling­ar eigi að höndla með, ekki ríkið, hafa greini­lega lagst á lög­spek­ing­ana og reynd­ar segja kok­hraust­ir þing­menn frá því. Því í lok fjöru­tíu og fimm blaðsíðna út­tekt­ar um málið segja Friðrik Friðriks­son og Stefán Már að þeir telji að pakk­inn stang­ist á við stjórn­ar­skrána. En svo koma loka­orð lög­fræðing­anna með veikri lausn sem trú­lega stenst ekki fyr­ir dóm­stól­um.“

Þetta segir Guðni Ágústsson, fv. formaður Framsóknarflokksins og ráðherra, í greiní Morgunblaðinu í dag. Hann bætir við að þetta mikla og skýra lög­fræðilega álit sé haldið veik­um loka­orðum sem stand­ast ekki, því sæ­strengs­menn­irn­ir muni síðar hrinda álykt­un Alþing­is úr vegi með mál­sókn er­lend­is. 

„Þeir munu líka hrinda þjóðar­eign­inni á Lands­virkj­un, henni verður skipt upp og hlut­ir henn­ar seld­ir. Laga­spek­ing­arn­ir segja: „Mögu­leg lausn gæti fal­ist í því að þriðji orkupakk­inn verði inn­leidd­ur í ís­lensk­an rétt með laga­leg­um fyr­ir­vara um að ákvæði hans um grunn­virki yfir landa­mæri, t.d. 8. gr. reglu­gerðar nr. 713/-​2009, öðlist ekki gildi, enda er slík­um grunn­virkj­um ekki fyr­ir að fara hér á landi.“ Þetta þýðir víst að sæ­streng­irn­ir verði aðeins lagðir ef Alþingi lög­festi það. Þess­ari lausn, ef lausn skyldi kalla, lýk­ur svo með orðum þeirra: „Þessi lausn er þó ekki galla­laus.“ Þarna bregða þeir fyr­ir sig Ara fróða „hvað sem missagt er í fræðum þess­um, þá er skylt að hafa það held­ur er sann­ara reyn­ist“. Þetta er full­kom­inn lög­fræðileg­ur fyr­ir­vari. Þeir þvo hend­ur sín­ar eins og Pílatus forðum, fría sig af ákvörðun Alþing­is í framtíðinni.

Þessi loka­orð lög­spek­ing­anna eru þján­ing­ar­full en þau duga þó til að efa­semd­ar­menn­irn­ir í þing­flokki Sjálf­stæðis­flokk­ins taki upp gleði sína enda vita þeir að flokk­ur­inn á svo mikið und­ir markaðshyggj­unni og dug­lega fólk­inu. Nú skal málið keyrt áfram og spurn­ing­in er, hvað gera fram­sókn­ar­menn og vinstri græn­ir? Ganga þeir í humátt, hljóðir og prúðir, og vona að flokks­menn gleymi strax svona und­anslætti frá stefnu flokk­anna. Gáið að ykk­ur, Sig­urður Ingi Jó­hanns­son og Lilja Al­freðsdótt­ir. Þeir flokk­ar sem eru í mestri and­stöðu við orkupakk­ann eru stjórn­ar­flokk­arn­ir, um 90% flokks­manna allra flokk­anna eru á móti hon­um. Þegar EES-samn­ing­ur­inn var und­ir­ritaður 1993 sögðu menn það sama: Við erum með belti og axla­bönd, við eig­um okk­ar auðlind­ir áfram, samn­ing­ur­inn snýst ekki um sjáv­ar­út­vegsauðlind­ina, hann snýst ekki um orku­auðlind­ina, hann snýst ekki um land­búnaðarauðlind­ina. Hvað þá allt ferska vatnið sem nú er horft á öf­und­ar­aug­um. Nokkr­um árum síðar var land­búnaður­inn kom­inn und­ir EES og mat­væla­lög­gjöf þess, hráa kjötið o.fl., og er enn í átaka­ferli. Yfirþjóðlegt vald sýn­ir sig og brotið er á stjórn­ar­skránni aft­ur og aft­ur. 

Hví er bar­ist um að kaupa auðlindaj­arðir?

Hvað líða mörg ár þar til þeir inn­lendu og er­lendu auðmenn, sem nú eru að kaupa upp landið og ætla að selja ork­una, virkj­un­ar­rétt­inn og vatnið eins og epli og app­el­sín­ur, hafa kært hið ís­lenska ákvæði um sæ­streng? EES-samn­ing­ur­inn opnaði fyr­ir jarðakaup út­lend­inga og sum­ir segja að jarðalög, sem und­ir­ritaður bar ábyrgð á sem land­búnaðarráðherra, hafi opnað enn frek­ar leið þeirra. Jarðakaup á Íslandi voru leyfð út­lend­ing­um með EES-samn­ingi. Rétt­ur þeirra var inn­leidd­ur í EES. Strax um alda­mót­in 2000 fór eft­ir­lits­stofn­un ESA að krefjast breyt­inga á jarðalög­um frá 1976. Þau stönguðust á við EES-samn­ing­inn. Það var ekk­ert ís­lenskt ákvæði til. Til að forðast lög­sókn og skaðabæt­ur varð að breyta jarðalög­um og jafna leik­regl­urn­ar. 

Alþingi ber nú að grípa inn í jarðakaup út­lend­inga því heilu héruðin eru að falla auðmönn­um, er­lend­um og inn­lend­um, í skaut. Hvers vegna? Það eru átök­in um yf­ir­ráðin á orku, virkj­un­um, vatni og landi. Brus­sel-valdið er búið að hlæja sig mátt­laust að þessu sér­ís­lenska ákvæði sem oft hef­ur verið nefnt áður. Það er notað til heima­brúks á Íslandi, segja þeir. Sann­leik­ur­inn er þessi, ut­an­rík­is­ráðherr­an­um verður ekk­ert gagn af belt­inu og axla­bönd­un­um, bux­urn­ar eru nefni­lega úr híalíni. Ég hvet bæði Alþingi og rík­is­stjórn til að skoða mál­in af gaum­gæfni, hverj­ar verða af­leiðing­arn­ar af samþykkt orkupakk­ans? Og við eig­um þann rétt sem þjóð að hafna því að taka pakk­ann upp, það ligg­ur fyr­ir í EES-samn­ingi. 

Nú kall­ar Þor­steinn Páls­son, fv. for­sæt­is­ráðherra og formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, kúnst­ir ut­an­rík­is­ráðherr­an­as „lofs­verðar blekk­ing­ar“ og bæt­ir við: „Hann á fullt lof skilið fyr­ir vikið.“ Svona breyt­ast viðhorf manna þegar þeir hafa tekið trúna. Ólíkt haf­ast þeir að nú, Þor­steinn og Jón Bald­vin,“ bætir Guðni Ágústsson við.