Hvað gerðist eiginlega í Garðastrætinu?

Gísli Hauksson stýrði Gamma svo ekki fór framhjá neinum.

Um fátt er nú talað meira í íslensku viðskiptalífi en hörmungartíðindin sem berast innan úr Gamma og móðufélaginu, Kviku banka þessa dagana.

Á árunum eftir hrun var Gamma eitt eftirtektarverðasta fjármálafyrirtækið hér á landi, drifið áfram af kraftmiklu fólki sem virtist framsýnt og dugandi. Sérfræðingar þess sáu tækifæri á húsnæðismarkaði þegar aðrir pökkuðu í vörn, félagið varð umfangsmikið í skammtímafjármögnun þegar bankarnir læstu sínum fjárhirslum og gleymdu helsta hlutverki sínu og forsvarsmenn þess létu að sér kveða sem dugmiklir bakhjarlar í lista- og menningarlífinu svo eftir var tekið.

Um tíma virtist hreinlega sem Gísli Hauksson og hans fólk í Gamma gæti gengið á vatni, svo mikil var velgengnin. Hver sjóðurinn var stofnaður á fætur öðrum, fjármagnaður með umframeftirspurn fagjárfesta og ávöxtunin var til eftirbreytni.

Eins og í ævintýrunum var þetta líklega of gott til að vera satt og undanfarið virðist hafa komið í ljós að það hafi einmitt verið vandinn. Útrás félagsins á aðra markaði virðist hafa verið rándýr ferð án fyrirheits og kostnaður allskonar fór upp úr öllu valdi, svo mjög raunar að vík varð milli vina í sjálfu baklandi frumherjanna í Gamma og uppskipti urðu.

Þegar þarna var komið, voru spurningamerkin kringum Garðastrætið orðin stór. Og þeim fór fjölgandi. Skyndilega lá lífið á að komast í skjól hjá Kviku banka og þurfti rándýrt neyðarlán frá Stoðum til að redda sér á lokametrunum.

Valdimar Ármann, er hættur sem forstjóri Gamma.

Ástandið hefur bara versnað undanfarnar vikur og er ekki að undra að forsvarsmann tryggingafélaganna beri sig aumlega eftir miklar niðurfærslur undanfarna daga í ljósi þess að kynningar á sömu sjóðum í maí voru allt aðrar og fallegri. Annað hvort skall á fárviðri í sumar sem fór framhjá okkur hinum í veðurblíðunni, eða fiskur leynist þar undir steini sem finna þarf sem fyrst.

Svo virðist sem sérfræðingar Kviku, sem settir voru yfir Gamma í sumar, hafi fljótlega áttað sig á því að eitthvað mikið væri að. Sagan segir að Ásgeir Baldurs hafi farið að reikna og dæmið hjá honum hafi einfaldlega ekki gengið upp, sama hversu oft var reynt. Niðurfærslan nú er afleiðing af þeirri vinnu og orðrómur er um að margt fleira vont sé í farvatninu.

Vonandi er það ekki reyndin, en mikilvægast nú er að lofta almennilega út, varpa ljósi á það sem þarf og eyða öllum vafa um lögmæti þeirra gjörninga sem ráðist hefur verið í.

Bankakerfið hér á landi þarf ekki á fleiri hneykslismálum að halda.