Hvað gerir nefndin varðandi fátæk hundruða milljóna manna lönd?

Hugleiðingu dagsins á Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, sem fjallar á fésbókinni um nýja úrskurði kærunefndar útlendingamála:

„Jæja, þá hefur kærunefnd útlendingamála séð að sér, að nokkru leyti, og tilkynnt að allir hælisleitendur sem koma frá Venesúela fái ekki sjálfkrafa stöðu flóttamanna (Ísland var eina landið með þessa reglu). Þeir munu þó fara inn í kerfið sem virðist þurfa 3 ár til að komast að niðurstöðu.

Og hver veit hvað nefndin gerir þegar hún tekur fyrir fátæk hundruða milljóna manna lönd eins og Nígeríu, Pakistan og Bangladess?

Dómsmálaráðherrann virðist ánægður með niðurstöðuna, hafandi beðið eftir því að einhver nefnd úti í bæ segði sér hvernig reglurnar ættu að vera, en nefnir þó að þetta kalli á mikil fjárútlát til að styrkja fólkið til að fara heim og koma sér fyrir þar.

Ráðherrann talar um að þetta gæti varðað 1.500 manns og leitt til „einna umfangsmestu fólksflutninga seinni tíma”

Látum vera að nefna að sú tala sé eins og Kaupmannahafnarflugið á einum degi. Ráðherrann virðist hafa misst af því að annar ráðherra er nýbúinn að tilkynna, eftir kynningu í ríkisstjórn, að hælisleitendur sem koma hingað og reynast ekki eiga rétt á hæli og neita að fara verði hér áfram en færist einfaldlega yfir til sveitarfélaganna.

Þessi málaflokkur er í algjörri steik og lagast ekki fyrr en lögin verða endurskrifuð til samræmis við reglurnar á Norðurlöndum, einkum í Danmörku.

Ég er búinn að fá nóg af þessum villuljósum sem ráðherrar kveikja án nokkurra aðgerða til að taka á því neyðarástandi sem Ísland stendur frammi fyrir,“ segir hann.