Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, segir nokkuð ljóst af ræðu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í fyrradag, laugardag, að þingflokkur sjálfstæðismanna ætli sér að samþykkja orkupakka 3 á Alþingi um næstu mánaðamót.
Á vefsíðu sinni segir Styrmir:
„Og þá er spurningin, hver verði pólitísk áhrif þess hér heima fyrir?
Líkleg áhrif þess eru þau að stjórnarflokkarnir og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur verði fyrir verulegu áfalli í fylgi og að það komi smátt og smátt fram í skoðanakönnunum.
Það gæti t.d. átt þátt í að færa Sjálfstæðisflokkinn niður fyrir 20% mörkin með varanlegri hætti en hingað til. Í því fælust ákveðin kaflaskil í íslenzkum stjórnmálum og áhrifastaða flokksins svipur hjá sjón miðað við það sem áður var.
Það er nokkuð ljóst að það gæti orðið rothögg fyrir Framsóknarflokkinn, sem berst fyrir lífi sínu í samkeppni við Miðflokkinn og það gæti orðið til þess að kippa fótunum undan VG, sem hefur áreiðanlega notið vaxandi skilnings fólks á loftslagsvánni og jafnvel leitt til þess að til verði nýr flokkur græningja á Íslandi.
Þessar pólitísku afleiðingar þess að orkupakkinn verði samþykktur hafa verið fyrirsjáanlegar lengi. Þingmenn stjórnarflokkanna hljóta að gera sér grein fyrir þessu, eins og allir aðrir.
Hvað í ósköpunum veldur þá þessari ótrúlegu stífni stjórnarflokkanna í þessu tiltekna máli?“