Hvað þarf til að þingmenn Sjálfstæðisflokksins átti sig á hinu augljósa?

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Ríkisstjórn og löggjafi sem skilja ekki eða virða að vettugi frumskyldur sínar þurfa að endurskoða erindi sitt,“ segir Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann er reyndar ranglega sagður formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Af því embætti lét hann, sem kunnugt er, í haust.

En grein þingmannsins er athyglisverð, ekki síst fyrir þar sakir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt aðild að ríkisstjórn með Vinstri grænum undanfarin sex ár og á þeim tíma hefur nákvæmlega ekkert verið unnið í því að reisa nýjar vatnsaflsvirkjanir. Af þeim ástæðum hefur nú verið lagt fram frumvarp til að forgangsraða orku til heimila í mögulegri orkukreppu, sem skýrir kannski yfirskrift greinar þingmannsins, sem er einmitt: Orkuskortur vinnur gegn orkuskiptum.

Og þar segir Óli Björn:

„Frumvarpið er viðbragð við stöðu sem fáir trúðu að þjóð sem á fjölmarga kosti í orkuöflun gæti lent í. Orkuskorturinn hefur þegar haft áhrif. Þriðja veturinn í röð neyðast fiskimjölsverksmiðjur til að brenna olíu vegna raforkuskorts. Því er haldið fram að aukin olíunotkun vegna þessa síðasta vetur hafi þurrkað út allan loftslagsávinning af öllum innfluttum rafmagnsbílum frá upphafi. Þannig vinnur orkuskortur gegn orkuskiptum og við fjarlægjumst háleit markmið í loftslagsmálum.

Við stöndum á ákveðnum krossgötum. Ef stjórnvöld meina eitthvað með áherslu á orkuskipti – draga úr og á endanum hætta notkun á jarðefnaeldsneyti – þarf að hefja stórátak í grænnu orkuframleiðslu. Án nægrar grænnar orku er allt tal um orkuskipti merkingarlaust.“

Allt er þetta rétt hjá þingmanninum. En hann styður ríkisstjórn sem ekkert gerir til að rétta af þessa stöðu. Stjórnmálaflokkur sem er við að þurrkast út í könnunum, heldur þjóðinni í heljargreipum og segir stopp við nýrri grænni orkuöflun. Allt er stopp og árangurinn enginn. Það er staðan og alveg sama hvað gengur á, er Óli Björn alltaf á já-takkanum í atkvæðagreiðslum í þinginu ásamt félögum sínum í Sjálfstæðisflokknum og lætur ruglið, kreddurnar og kyrrstöðuna yfir sig ganga.

Í grein Óla Björns er beinlínis gefið í skyn, að ríkisstjórnin þurfi að endurskoða erindi sitt. Sagt er að hann hafi hætt sem þingflokksformaður til að þurfa ekki sífellt að verja stjórnarsamstarf sem hann trúir ekki sjálfur á. En að óbreyttu er þetta stjórnarsamstarf að valda Sjálfstæðisflokknum og íslensku þjóðinni ómældum skaða. Hvað þarf til að þingmenn Sjálfstæðisflokksins átti sig á hinu augljósa?