Hvaða leið vill Fréttablaðið fara?

Jón Þórisson ritstjóri Fréttablaðsins.

Erlendis hafa ýmsir jaðarmiðlar stundað það undanfarið að tala áhrif kórónaveirunnar niður, slíkt hafa margir stuðningsmenn Trumps Bandaríkjaforseta gert sömuleiðis. En á Íslandi virðist útbreiddasta dagblað landsins, Fréttablaðið, komið á þá skoðun að veiran sé ekki verri en slæmt kvef og allt of mikið sé gert í varúðarráðstöfunum gegn henni.

Þrír leiðarahöfundar Fréttablaðsins, þau Jón Þórisson, Hörður Ægisson og Kolbrún Bergþórsdóttir –– allt mætasta fólk –– hafa undanfarið skrifað hvern leiðarann á fætur öðrum, þar sem því er haldið fram, fullum getum, að veiran sé ekki jafn hættuleg og af er látið og viðbrögð íslenskra stjórnvalda séu langt umfram efni.

Samt liggur fyrir að takmarkanir íslenskra yfirvalda eru mjög hófsamar miðað við það sem þekkist í mörgum löndum; hér var aldrei sett á útgöngubann, her og lögregla elta fólk ekki á röndum og skólahald að mestu gengið eðlilega fyrir sig.

Því er varla skrítið þótt lesendur Fréttablaðsins velti því fyrir sér hvað forsvarsmenn þess vilji gera. Er hugmyndin að hér verði farin sænska leiðin og veiran látin fara um allt óáreitt til þess að ná fram hjarðónæmi? Og væri þá ekki bara heiðarlegast að segja það?

Skoðanakannanir hafa ítrekað sýnt afgerandi stuðning landsmanna við sóttvarnalækni og þríeykið, en Jón Þórisson aðalritstjóri Fréttablaðsins segir samt í leiðara dagsins, að kóvið ætli „allt lifandi að drepa“, einkum vegna viðbragða okkar við henni. „Hin kalda hönd sem menn hafa lagt á samfélög um heiminn er að ganga af öllu dauðu sem kvikt er,“ segir hann.

„Er mögulegt að hræðsluviðbragðið ráði mestu um hvernig við mætum þessum andskota nú?“ spyr Jón og bendir á að ekki sé hægt að slökkva á samfélagi. „Við getum lokað börum og við getum lokað skemmtistöðum. En við getum ekki búið við að samfélagi manna sé lokað hér. Það eru vissulega hagsmunir fólgnir í því að spyrna við þegar heilbrigðisvá steðjar að en öllu má ofgera.

Það er alls ekki gert lítið úr þeim langvarandi eftirköstum sem þeir sem veikjast hafa lent í, en það er ekki fjölmennur hópur af þeim rúmlega 2.500 Íslendingum sem hafa sýkst. Og það atriði eitt og sér getur ekki réttlætt allan viðbúnaðinn. Það hefur líka eftirköst að loka samfélagi, fólk missi vinnu, einangri sig.

Sóttvarnayfirvöld hafa margítrekað að hugmyndin um veirulaust samfélag sé óraunhæf og sé ekki markmið aðgerðanna. Við þurfum að taka upp nýja nálgun. Við þurfum að breyta inntaki þess sem nefnt hefur verið að lifa með veirunni. Við þurfum með æðruleysi að halda áfram að lifa,“ bætir hann við.

Spurningin er: Hvernig telur Fréttablaðið best að tækla veirufjandann?