Hvaða Sjálfstæðisflokkur mun bjóða fram í vor?

Spenna er hlaupin í borgarmálin, enda stutt í borgarstjórnarkosningar. Þau tíðindi að Hildur Björnsdóttir hafi skorað Eyþór Arnalds á hólm í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins eftir áramót gæti þýtt að flokksstarfið verði mjög líflegt á næstunni, enda mun niðurstaða prófkjörsins líklega ákvarða hvaða eða hvers konar Sjálfstæðisflokkur býður fram í kosningunum næsta vor.

Hildur er afar frambærilegur og fjölmiðlavænn stjórnmálamaður og hefur nægt pólitískt sjálfstraust til að taka slaginn, en stuðningsmenn Eyþórs segja hana eiga meira sameiginlegt með Samfylkingunni og Viðreisn í skipulagsmálum en grasrót sjálfstæðismanna. Þessu harðneita fylgismenn Hildar og segja hana nútímalegan stjórnmálamann sem eigi raunhæfan möguleika á að verða næsti borgarstjóri á grundvelli hugmynda um öflugt skólastarf, ábyrga fjármálastjórn og nútímalega borg.

Hildur á eftir að sýna frekar á sín spil og er vafalaust meðvituð um að vera tengd við stuðning við borgarlínu, lokun Laugavegar og fleira sem margir sjálfstæðismenn eru afar ósáttir við. En það má líka benda á að ríkisstjórnin með fjármálaráðherrann og formann flokksins innanborðs, er líka innvinkluð í borgarlínuáformin og samgöngustefnu sem ber öll höfundareinkenni borgarstjórans Dags B. Eggertssonar. Og sömuleiðis margir bæjarstjórar Sjálfstæðisflokksins í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, svo merkilegt sem það er.

Eyþór Arnalds mun benda á að hann hafi í reynd unnið kosningasigur í kosningunum fyrir tæpum fjögur árum; aukið fylgi Sjálfstæðisflokksins og fellt meirihlutann. En Viðreisn komið til bjargar á ögurstundu, breyst í enn einn vinstri flokkinn og komið í veg fyrir stjórnarskipti í Ráðhúsinu. Vandi Eyþórs var að það vantaði stuðning á miðjunni til að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokkinn; Framsóknarflokkurinn náði ekki manni inn og aðeins Vigdís Hauksdóttir komst inn fyrir Miðflokkinn. Sá tími er líklega endanlega liðinn að Valhöll geti látið sig dreyma um hreinan meirihluta í borginni.

Prófkjörið verður án efa spennandi og gæti orðið lyftistöng fyrir Sjálfstæðisflokkinn. En það mun ekki aðeins snúast um persónur og leikendur, hvorn þessara tveggja frambjóðenda sjálfstæðismenn vilja að verði oddviti í komandi kosningum. Þetta verður líka innanflokkskosning um stefnu í skipulags- og umferðarmálum, um þéttingastefnuna og fjármálastjórn stærsta sveitarfélags landsins…