
„Undanfarinn áratug hafa Íslendingar tekist á við mörg stór viðfangsefni. Í hverju tilviki hafa birst mjög ólík álit sérfræðinga. Þegar málin snúast um „gamaldags hluti“ eins og að verja fullveldi og íslenska hagsmuni skortir jafnan ekki viðvaranir frá kerfinu. Ég minnist dæma um að þegar kjósendur töldu mikilvægt að gera eitthvað var útskýrt að það væri ekki hægt. En þegar kjósendur vildu alls ekki gera eitthvað var útskýrt að það væri þó nauðsynlegt.“
Þetta skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, í grein í Morgunblaðið í dag.
„Þegar fengist er við stór pólitísk álitaefni er ekki við öðru að búast en að sérfræðingar leggi ólíkt mat á þau. Við þær aðstæður þarf pólitíska forystu. Stjórnmálamenn þurfa að taka af skarið og gera það sem þeir telja rétt. En svo gerist það stöku sinnum að staðreyndir mála birtast ljóslifandi og ættu að auðvelda stjórnmálamönnum valið.
Það hefur nú gerst í orkupakkamálinu. Ýmsir atburðir hafa orðið til að sýna fram á hvaða áhrif þriðji orkupakkinn hefur í raun. Þar má nefna málaferli ESB gegn tólf ríkjum fyrir að bjóða ekki út nýtingarrétt virkjana (jafnvel hjá ríkisfyrirtækjum sem virkjuðu fyrir mörgum áratugum). Svo er það nýjasta dæmið. Dæmi sem er nánast eins og það hafi verið hannað til að taka af allan vafa um það sem deilt hefur verið um á Íslandi. Þar svarar Evrópusambandið sjálft og gerir það með mjög afgerandi hætti. ESB hefur hafið málaferli gegn Belgíu, landinu sem hýsir höfuðstöðvar sambandsins, vegna þriðja orkupakkans.
Belgía
Belgum er gefið að sök að hafa ekki innleitt pakkann rétt. Hvað vantaði upp á að mati ESB?:
1. Belgar höfðu ekki falið útibúi orkustofnunar ESB (landsreglaranum) fullt vald til að taka bindandi ákvarðanir um raforku- og gasverkefni í landinu. Stofnuninni var leyft að koma með tillögur en belgísk stjórnvöld höfðu gerst svo ósvífin að ætla kjörnum fulltrúum að taka endanlegar ákvarðanir um þau mál.
2. Belgar vildu að þarlend stjórnvöld hefðu síðasta orðið um tengingar landsins við raforkukerfi Evrópu. Eða eins og það er orðað í fréttatilkynningu ESB: „Það sama á við um að skilyrði fyrir tengingu við raforku- og gaskerfi Evrópu skuli sett af belgískum stjórnvöldum fremur en landsreglaranum, eins og löggjöfin [orkupakkinn] gerir kröfu um“.
3. Loks hafa Belgar ekki tryggt að flutningsfyrirtækin stjórni í raun öllu dreifikerfinu sem þau bera ábyrgð á. Fyrir vikið sé ekki tryggt að öllum framleiðendum verði veittur jafn aðgangur að kerfinu. Eins og komið hefur fram er það á ábyrgð stjórnvalda að byggð séu upp dreifikerfi sem einkafyrirtæki, erlend eða innlend, eiga svo að fá afnot af.
Þægari en Belgar
Hver eru viðbrögð íslenskra stjórnvalda við þessu? Þau komu loks frá fjármála- og utanríkisráðherra í fyrradag. Íslensk stjórnvöld ætla að komast hjá svona málaferlum með því að ganga lengra í innleiðingu 3. orkupakkans en Belgar. Ætlunin er að uppfylla allar kröfur ESB. Þ.e. við ætlum að leyfa yfirráð ólýðræðislegra stofnana yfir framkvæmdum í orkumálum og tengingum yfir landamæri.
Þrátt fyrir þetta hafa menn mánuðum saman leyft sér að halda því fram að innleiðing orkupakkans hefði engin áhrif á Íslandi.
Það var gert á sama tíma og tilgangur orkupakkans lá fyrir í skjölum ESB og EFTA og á sama tíma og fyrir Alþingi lá frumvarp stjórnvalda um að breyta eðli Orkustofnunar. Til hvers er það frumvarp ætlað, jú til að gera Orkustofnun að landsreglara. Þ.e. að ganga lengra en Belgar og uppfylla þannig að fullu kröfur ESB.
Íslenski landsreglarinn
Framanaf gengu menn svo langt í leiktjaldagerð að halda því fram að breytingarnar á Orkustofnun gengju einkum út á að gera hana sjálfstæða og reyndar væri þetta líka spurning um að hún fengi að auka gjaldtöku og snerist um neytendamál.
Það eitt að ætla að gera ríkisstofnun óháða ríkinu, óháða lýðræðislegu valdi, er nógu slæmt. Það fæli í sér kerfisvæðingu af verstu sort. Markmiðið er hins vegar ekki bara að gera stofnunina að ríki í ríkinu. Markmiðið er að gera stofnunina að fulltrúa erlends valds. Færa hana að miklu leyti undir ókjörna erlenda embættismenn og tryggja að íslenskir kjósendur eða stjórnmálamenn hafi ekkert um hana að segja.
ESA lausnin
Því var svo bætt við að þetta ætti ekki að valda okkur neinum áhyggjum því að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) verði milliliður milli Orkustofnunar (landsreglarans) og ACER (evrópsku orkustofnunarinnar).
Fyrst er það til að taka að ESA hefur ekki talið það hlutverk sitt að verja afstöðu Íslands. Hún hefur þvert á móti efnt til málaferla gegn landinu, m.a. í landbúnaðarmálum. En látum það liggja á milli hluta. Sem milliliður á milli Orkustofnunar og ACER verður ESA fyrst og fremst í hlutverki bréfbera. ACER leggur línurnar og ESA kemur þeim til skila og fylgist með því að þeim sé fylgt. Að vísu hefur ESA heimild til að senda athugasemdir til ACER en stofnuninni ber ekki að taka mark á þeim. ACER hefur síðasta orðið.
Það er því viðbúið að áhrif ESA fælust fyrst og fremst í að benda ACER á að Íslendingar væru ekki að fylgja orkupakkanum nógu vel. Með öðrum orðum, milliliðshlutverk ESA yrði til þess fallið að auka eftirlit með Íslandi umfram Evrópusambandslöndin.
Niðurstaðan
Markmiðum orkupakkans er lýst skýrt, fyrir liggja áform íslenskra stjórnvalda um að „innleiða að fullu“, afdráttarlaus raundæmi hafa sýnt okkur hvað í því felst. Svar stjórnvalda er samt enn: „Hættið að tala um þetta, þetta hefur engin áhrif.“ Hvaða von eiga kjósendur, hvaða von á lýðræðið, við þessar aðstæður?,“ segir hann ennfremur.