Óhætt er að segja að hveitibrauðsdagarnir séu engir hjá Bjarna Benediktssyni, nýjum forsætisráðherra, og ríkisstjórn hans. Skoðanakannanir, traustsmælingar og undirskriftalistar eru með óhagfelldara móti og greinilegur kosningahugur kominn í flesta flokka. Reyndir refir spá því að draga muni til tíðinda fljótlega eftir forsetakosningar og þá geti einfaldlega allt gerst.
Bjarni veit sem er að það er brekka, en hann má eiga það að við slíkar aðstæður er hann oft í sínu besta formi. Hann veit sem er, að hann á sjálfur mikið undir því að vel takist til, samstaða verði meiri en áður í ríkisstjórnarflokkunum og árangur náist.
Á fjölmennum fundi sjálfstæðismanna á Hilton-hótelinu um helgina, var ekki á Bjarna að heyra að hann sé á útleið úr stjórnmálum. Og hann lagði þar áherslu á hlutverk sitt sem forsætisráðherra; hann væri ekki aðeins verkstjóri þriggja flokka heldur forsætisráðherra allrar þjóðarinnar.
„Það eru þrír flokkar í ríkisstjórn. Fyrir þeim öllum vil ég berjast þannig að allir fái sín notið sem eiga aðild að ríkisstjórninni. Það skiptir máli til þess að við náum þessum pólitíska stöðugleika sem ég legg mikið virði í,“ sagði Bjarni.
Hann sagði að vissulega gæti tekið á að gera málamiðlanir stundum. Það sé ekkert sjálfsagt að miðla málum þegar mikil sannfæring sé fyrir hendi.
„En við skulum gæta okkar á því að ganga ekki of langt í kröfunni um að okkar áherslur í hverju og einu máli verði einar látnar ráða. Hvar endum við þá? Með enga samstarfsmenn, enga aðra flokka sem geta unnið með okkur,“ sagði hann og benti á að sjálfstæðismenn þurfi að viðurkenna og ræða meira að nú starfi átta þingflokkar á Alþingi og þess vegna þurfi sífellt að leita leiða til að vinna að framfaramálum fyrir þjóðina.