Hvar eru breytingarnar Einar?

Lítið hefur sést undanfarið til formanns borgarráðs og væntanlegs borgarstjóra, framsóknarmannsins Einars Þorsteinssonar. Við hann voru miklar vonir bundnar, enda stökk hann sem nær fullskapaður stjórnmálamaður fram og beint úr hlutverki fréttamannsins og boðaði breytingar í borgarstjórn Reykjavíkur. Því kalli svöruðu langþreyttir borgarbúar og kusu framsókn í stórum stíl, til að knýja fram breytingar, enda hafði meirihlutinn fallið í tvennum kosningum í röð undir forystu Dags B. Eggertssonar, en hann ávallt fundið leið til þess að halda völdum og óbreyttri stefnu þrátt fyrir það.

Til að gæta allrar sanngirni var tilhlýðilegt að gefa Einari tækifæri til að móta sig í nýju hlutverki, en viðvörunarbjöllurnar hringdu þegar hann tók að sér að verja gamla meirihlutann og tryggja honum áframhaldandi völd – þrátt fyrir loforðin um breytingar.

En nú er rétt að spyrja: Hvar eru breytingarnar sem þú lofaðir Einar?

Það er enn hallæri í leikskólamálum; keyrt á þéttingu af öllu afli, sorphirðan er í lamasessi og snjókoma kom mokstursfólki borgarinnar í opna skjöldu í vetur sem leið. Mygla hefur víða sett skólastarf úr skorðum, allt er gert til að tefja fyrir umferð einkabílsins og bílastæðagjöld í miðborginni voru hækkuð um 40% með einu pennastriki um daginn, tími gjaldskyldu lengdur innan dags og sunnudögum bætt við.

Já og svo er rekstur borgarinnar í járnum, en samt er ekkert skorið af efsta fitulaginu í Ráðhúsi Reykjavíkur; hvað skyldu til dæmis vera orðnir margir upplýsingafulltrúar þar? Og fimmtán manna sendinefnd er á leið á vegum borgarinnar, en samt eru ekki til fjármunir fyrir lögbundinni grunnþjónustu.

Hvað segir Einar þá? Kannski er tími fyrir hann til að mæta í eins og einn Kastljósþátt? Þar þyrfti öflugur spyrill að ganga eftir alvöru svörum og efndum hinna margauglýstu loforða. Verst að Einar Þorsteinsson skuli ekki vera laus í það, sá hefði ekki látið stjórnmálamanninn og alnafna sinn komast upp með neinn moðreyk…