Óhætt er að segja að forysta Sjálfstæðisflokksins fái það óþvegið í pistli Björns Jóns Bragasonar, sagnfræðings, lögfræðings og rithöfundar, á DV/Eyjunni í dag þar sem hann kallar ríkisstjórnarsamstarfið „vanheilagt bandalag“ þar sem sjálfstæðismenn gangist reglulega undir svipugöng Vinstri grænna, nú síðast í útlendingamálunum.
„Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur farið mikinn í umræðuþáttum vegna þessar og talar enga tæpitungu – taka verði af ábyrgð og festu á þeim alvarlega vanda sem uppi er. Því var ekki að undra að athygli vekti í liðinni viku þegar ríkisstjórnin boðaði aðgerðir í málaflokknum. Sé rýnt í þá langorðu yfirlýsingu sem fylgdi kemur í ljós að þar er engin tilraun gerð til að ráðast að rótum vandans – en hann felst í því að hingað leita miklu fleiri hælisleitendur en nokkurn tímann er hægt að sinna með góðu móti, fjöldinn er á pari við fædda Íslendinga á ári hverju. Það sem mestu máli skiptir er að stemma stigu við aðflutningnum, afnema veikleika í lögum og regluverki sem hafa leitt yfir okkur þennan vanda. Sjálfur álítur dómsmálaráðherra að hámarksfjöldi sem kerfin ráði við séu fimmhundruð manns á ári. Fjöldi umsækjenda er meira en áttföld sú tala,“ skrifar Björn Jón.
Hann bendir á að Katrín Jakobsdóttir hafi nú setið lengur á stóli forsætisráðherra en nokkur annar forystumaður vinstriflokks hér á landi. „Sjö – og kannski átta – ára stjórnarseta kemst á spjöld sögunnar þó svo að flokkur Katrínar kunni jafnvel að þurrkast út í næstu kosningum,“ bætir hann við.
Björn Jón segir svo að lokum:
„Að því sögðu verður forvitnilegt að sjá hvernig sagnfræðingar framtíðarinnar munu fjalla um núverandi tímaskeið í íslenskri stjórnmálasögu. Ekki kæmi mér á óvart að þar yrði leitað svara við því hvers vegna forysta Sjálfstæðisflokksins kaus að viðhalda hinu „vanheilaga bandalagi“ svo lengi og ganga ítrekað gegn helstu stefnumálum síns flokks. Hvernig gat það gerst að minnsti flokkurinn í stjórnarsamstarfi, yst til vinstri á þingi, náði undirtökunum í íslenskum stjórnmálunum? Eða eins og einn viðmælandi minn orðaði það á dögunum: Hvenær var Katrín Jakobsdóttir kjörin formaður Sjálfstæðisflokksins?“