Það er ekki ráðlegt að reisa nýjan flugvöll í Hvassahrauni, að mati Þorvaldar Þórðarsonar prófessors í eldfjallafræði, en rannsóknir og undirbúningsvinna hefur staðið yfir undanfarin ár á því að flytja innanlandsflug þangað úr Vatnsmýrinni. Jafnvel var talað um að slíkur flugvöllur gæti orðið framtíðarflugvöllur fyrir alþjóðaflug og verið varavöllur fyrir Keflavíkurflugvöll.
Svokölluð Rögnunefnd, undir forystu Rögnu Árnadóttur fv. ráðherra og nú skrifstofustjóra Alþingis, sem var stýrihópur ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group hafði það markmið að kanna og meta nokkra staði fyrir nýjan innanlandsflugvöll á höfuðborgarsvæðinu, taldi hagkvæmast að byggja nýjan flugvöll í Hvassahrauni, á mörkum Hafnarfjarðar og Voga. Nefndin lagði árið 2015, að flugvallarskilyrði í Hvassahrauni yrðu fullkönnuð með nauðsynlegum rannsóknum.
Þorvaldur var gestur Dagmála í sjónvarpi Morgunblaðsins í gær og þar ræddi hann stöðuna á Reykjanesi í ljósi þeirra jarðelda og jarðhræringa sem hafa verið undanfarið og benda til þess að nýtt eldgosatímabil sé hafið á skaganum, sem staðið getur um langt skeið og breytt öllum forsendum. Til að mynda telur prófessorinn ekki skynsamlegt að byggja höfuðborgarsvæðið austan Elliðaárvatns, ef aðrir kostir standa til boða.
En hann var einkar skýr í viðtalinu þegar kom að flugvallarstæði í Hvassahrauni, nokkuð sem enn er til alvarlegrar skoðunar í stjórnkerfinu:
„Ef menn ætla að fjárfesta í slíkum innviðum, er þá ekki sniðugra að setja það í gang á svæðum sem eru í annars konar hættu en Hvassahraun, því Hvassahraun er á svipuðu hættusvæði og Keflavíkurflugvöllur,“ sagði hann.
Í tilefni þessara orða er rétt að spyrja: Hvenær verða óraunhæfar hugmyndir um nýjan flugvöll í Hvassahrauni endanlega blásnar af? Eftir hverju er beðið?