Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fv. forsætisráðherra, gerir frétt Viljans frá í gær að umtalsefni í leiðara blaðsins í dag, og gagnrýnir harðlega þá gróðahyggju sem felist í sölu íslenskra orkufyrirtækja á svonefndum upprunaábyrgðum.
Eins og fram kom í Viljanum er niðurstaða greiningar Samtaka iðnaðarins sú, að þátttaka hérlendra raforkufyrirtækja í upprunaábyrgðum orki verulega tvímælis og grafi undan ímynd Íslands sem lands endurnýjanlegrar orku.
„Sala upprunaábyrgða hefur það í för með sér að raforkubókhald Íslands breytist þannig að hér mætti ætla að uppruni raforku sé 55% jarðefnaeldsneyti, 34% kjarnorka og einungis 11% endurnýjanleg orka,“ sagði í greiningunni.
Davíð segir í leiðaranum að þetta undarlega mál hafi lengi verið mikið feimnisefni hér á landi.
„Ekki hefur verið upplýst hver tók ákvörðun um að bía út orðstír landsins með þessum hætti. Og hverjir hafi unað svo forkastanlegri aðför að sjálfum sér sem þarna er um að ræða. Þeir sem tekið hafa við þessu óhreina fé hljóta að horfa til þeirra sem eru tilbúnir að greiða það til þess að draga upp skárri mynd af sjálfum sér með því að Ísland hreint taki á sig skítinn.
Brask með mengunarkvóta er svo sem litlu betra og þau „viðskipti“ sem undir þeim merkjum eru þola fæst dagsins ljós.
Eftir fall kommúnismans í Austur-Evrópu voru fjölmargar verksmiðjur fljótlega úrskurðaðar óstarfhæfar og það höfðu þær lengi verið á alla venjulega mælikvarða. Sjálfkrafa lokun þeirra blasti við. Enginn hefði saknað þeirra eða mengunaróhroðans sem þeim fylgdi. En þá áttu ógeðslegir braskarar næsta leik og nutu þeir verndar og atbeina lýðræðislegra valdhafa í Evrópu og búrókratanna í Brussel. Þá var látið eins og hinum gjörónýtu verksmiðjum hefði ekki verið lokað vegna þess að þeim var sjálfhætt, heldur vegna þess að fyrirtæki í Vestur-Evrópu hefðu keypt af þeim mengunarkvóta. Hvað þýðir það? Í þessu tilviki þýddi það að fyrirtækin í vestrinu gátu haldið áfram að menga árum og jafnvel áratugum saman án þess að það sýndi sig í mengunarskýrslum viðkomandi landa. Þau hefðu nefnilega eytt mengun í verksmiðjum sem hvort sem er var verið að loka og gátu mengað í krafti þess!
Þar var látið eins og sú staðreynd skipti ekki máli að fyrirtæki í austrinu gátu aldrei fengið starfsleyfi eftir að kommissarar fortíðar héldu ekki lengur yfir þeim verndarhendi og það þótt allar öryggisreglur, heilbrigðisreglur og reglur um almennan aðbúnað á vinnustað væru eins og aðeins tíðkast í þrælabúðum. Og þá fengu þeir menn háar greiðslur sem komið höfðu sér í lykilstöðu og stóðu í rústunum miðjum. Það var gríðarlegt fé í augum hinnar hrundu veraldar í austrinu. Var það ekki gott? Veitti þessum svæðum nokkuð af því? Jú, vissulega. En féð fór ekki þangað. Það fór í ólígarka sem komu sér upp lögheimili í vestrinu og mættu með fulla vasa fjár. Stærstum hluta fjársjóðanna fleyttu þeir inn í evrópsk skattaskjól í Sviss og Lúxemborg. Þegar mesta spillingarrykið hafði sest keyptu þeir milljarðavillur, snekkjur og fótboltafélög eða annað það sem hugurinn girntist.
En á Íslandi voru menn sem notuðu tækifærið í vitskertri veröld og sóttu fé sem sótaði þá sjálfa og landið þeirra út, en hvítskúraði mengunarvalda sunnan hafs.
Enginn þarf að ímynda sér að þeir sem komu yfirráðunum yfir orkumálunum undan landinu okkar, þrátt fyrir að þar með færu þeir gegn fyrirmælum stjórnskipunarlaganna, og þjóðarhagsmunum til langframa, muni hreyfa legg eða lið til að hreinsa þessa óværu af þjóðinni,“ segir ennfremur í leiðaranum.