Hver leyfði þess­um bjálf­um að bía út þjóðina?

Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fv. forsætisráðherra, gerir frétt Viljans frá í gær að umtalsefni í leiðara blaðsins í dag, og gagnrýnir harðlega þá gróðahyggju sem felist í sölu íslenskra orkufyrirtækja á svonefndum upprunaábyrgðum.

Eins og fram kom í Vilj­an­um er niðurstaða greiningar Samtaka iðnaðarins sú, að þátt­taka hér­lendra raf­orku­fyr­ir­tækja í upp­runa­ábyrgðum orki veru­lega tví­mæl­is og grafi und­an ímynd Íslands sem lands end­ur­nýj­an­legr­ar orku.

„Sala upp­runa­ábyrgða hef­ur það í för með sér að raf­orku­bók­hald Íslands breyt­ist þannig að hér mætti ætla að upp­runi raf­orku sé 55% jarðefna­eldsneyti, 34% kjarn­orka og ein­ung­is 11% end­ur­nýj­an­leg orka,“ sagði í greiningunni.

Davíð segir í leiðaranum að þetta und­ar­lega mál hafi lengi verið mikið feimnis­efni hér á landi.

„Ekki hef­ur verið upp­lýst hver tók ákvörðun um að bía út orðstír lands­ins með þess­um hætti. Og hverj­ir hafi unað svo forkast­an­legri aðför að sjálf­um sér sem þarna er um að ræða. Þeir sem tekið hafa við þessu óhreina fé hljóta að horfa til þeirra sem eru til­bún­ir að greiða það til þess að draga upp skárri mynd af sjálf­um sér með því að Ísland hreint taki á sig skít­inn.

Brask með meng­un­ar­kvóta er svo sem litlu betra og þau „viðskipti“ sem und­ir þeim merkj­um eru þola fæst dags­ins ljós.

Eft­ir fall komm­ún­ism­ans í Aust­ur-Evr­ópu voru fjöl­marg­ar verk­smiðjur fljót­lega úr­sk­urðaðar óstarf­hæf­ar og það höfðu þær lengi verið á alla venju­lega mæli­kv­arða. Sjálf­krafa lok­un þeirra blasti við. Eng­inn hefði saknað þeirra eða meng­un­ar­ó­hroðans sem þeim fylgdi. En þá áttu ógeðsleg­ir brask­ar­ar næsta leik og nutu þeir vernd­ar og at­beina lýðræðis­legra vald­hafa í Evr­ópu og búró­krat­anna í Brus­sel. Þá var látið eins og hinum gjör­ónýtu verk­smiðjum hefði ekki verið lokað vegna þess að þeim var sjálf­hætt, held­ur vegna þess að fyr­ir­tæki í Vest­ur-Evr­ópu hefðu keypt af þeim meng­un­ar­kvóta. Hvað þýðir það? Í þessu til­viki þýddi það að fyr­ir­tæk­in í vestr­inu gátu haldið áfram að menga árum og jafn­vel ára­tug­um sam­an án þess að það sýndi sig í meng­un­ar­skýrsl­um viðkom­andi landa. Þau hefðu nefni­lega eytt meng­un í verk­smiðjum sem hvort sem er var verið að loka og gátu mengað í krafti þess!

Þar var látið eins og sú staðreynd skipti ekki máli að fyr­ir­tæki í austr­inu gátu aldrei fengið starfs­leyfi eft­ir að komm­iss­ar­ar fortíðar héldu ekki leng­ur yfir þeim vernd­ar­hendi og það þótt all­ar ör­ygg­is­regl­ur, heil­brigðis­regl­ur og regl­ur um al­menn­an aðbúnað á vinnustað væru eins og aðeins tíðkast í þræla­búðum. Og þá fengu þeir menn háar greiðslur sem komið höfðu sér í lyk­il­stöðu og stóðu í rúst­un­um miðjum. Það var gríðarlegt fé í aug­um hinn­ar hrundu ver­ald­ar í austr­inu. Var það ekki gott? Veitti þess­um svæðum nokkuð af því? Jú, vissu­lega. En féð fór ekki þangað. Það fór í ólíg­arka sem komu sér upp lög­heim­ili í vestr­inu og mættu með fulla vasa fjár. Stærst­um hluta fjár­sjóðanna fleyttu þeir inn í evr­ópsk skatta­skjól í Sviss og Lúx­em­borg. Þegar mesta spill­ing­arrykið hafði sest keyptu þeir millj­arðavill­ur, snekkj­ur og fót­bolta­fé­lög eða annað það sem hug­ur­inn girnt­ist.

En á Íslandi voru menn sem notuðu tæki­færið í vit­skertri ver­öld og sóttu fé sem sótaði þá sjálfa og landið þeirra út, en hvít­skúraði meng­un­ar­valda sunn­an hafs.

Eng­inn þarf að ímynda sér að þeir sem komu yf­ir­ráðunum yfir orku­mál­un­um und­an land­inu okk­ar, þrátt fyr­ir að þar með færu þeir gegn fyr­ir­mæl­um stjórn­skip­un­ar­lag­anna, og þjóðar­hags­mun­um til lang­frama, muni hreyfa legg eða lið til að hreinsa þessa óværu af þjóðinni,“ segir ennfremur í leiðaranum.