„Í september nk. verða 10 ár síðan við Haraldur Johannessen tókum við ritstjórn Morgunblaðsins. Sá tími hefur liðið hratt og hvern dag göngum við til starfs glaðbeittir og fullir af tilhlökkun. Fyrir hatt bréfritara er skrítið að heyra eða sjá raddir um að ritstjórar Morgunblaðsins ættu ekki að skipta sér af umræðu dægurmála og þar með því sem snýr að stjórnmálalegri umræðu. Er þessu fólki alvara?“
Þetta segir Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í Reykjavíkurbréfi blaðsins í dag, þar sem segja má að hann bregðist við gagnrýni á blaðið og ritstjóra þess fyrir andstöðuna við þriðja orkupakkann og gagnrýni á forystu Sjálfstæðisflokksins.
„Varla hefði Bjarni Benediktsson (eldri) haft mikinn skilning á slíku hjali, en hann hvarf úr ráðherrastól í ritstjórastól Morgunblaðsins og gegndi áfram þingmennsku og flutti sig svo úr ritstjórastól yfir í ráðherrastól þremur árum síðar, en sat áfram í stjórn Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins. Slík blanda ritstjórnar og stjórnmála myndi ekki tíðkuð í dag, en það voru aðrir tímar og Bjarna fór hún vel og samdóma álit að bæði, Bjarni og blað, hafi notið góðs af,“ bætir hann við:
Ekki þurft að kvarta yfir kjósendum
Og Davíð segir ennfremur:
„Bréfritari var í lagadeild HÍ og þingfréttaritari Morgunblaðsins á miklum umrótartímum, og hafði árið á undan verið með Þingsjárþætti fyrir Ríkisútvarpið, en hafði áður komið í nokkur ár að þáttargerð fyrir þá merku stofnun, einkum fyrir atbeina Haraldar Ólafssonar dagskrárstjóra, og í einu ógleymanlegu tilviki fyrir áeggjan Stefáns Jónssonar fréttamanns, sem ætti eiginlega að skrifa með stórum staf.
Löngu áður hafði lærifaðir hans, Ævar R. Kvaran leikari, setti hann í nokkur hlutverk í útvarpsleikritum, en þau voru þáttur í þessari starfsemi, sem um árabil áttu óskipta athygli landsmanna. (Í tilviki bréfritara var um smárullur að ræða sem ekki voru eftirminnilegar fyrir neinn nema hann). Kannski urðu þessi umsvif, og þá ekki síst Útvarp Matthildur, til þess að Valgarð Briem, formaður kjörnefndar, beindi því til hans að taka þátt í prófkjöri vegna borgarstjórnarkosninga vorið 1974. Slegið var til þótt á þessum tíma stæði hugurinn ekki til þess að gera stjórnmál að ævistarfi.
Til eru fleygar setningar um að stjórnmálaframi endi oftast með tragidíu. Í tilviki bréfritara var það gleðileikur frá upphafi til enda. Frá prófkjörinu 1974 og þar til horfið var úr stjórnmálum rúmum þrjátíu árum síðar þurfti ekki að kvarta yfir hvernig kjósendur krossuðu á kjörseðilinn.“
Þess má geta, að Sjálfstæðisflokkurinn mældist í gær með 19% fylgi í skoðanakönnun MMR, sem er það minnsta nokkru sinni hjá því fyrirtæki.