Hvernig er hægt að horfa á sig í spegli þegar maður ber ábyrgð á þeirri ákvörðun?

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknis á bráðadeild LSH.

Yfirlæknir bráðamóttöku Landspítalans er harðorður í garð þeirra sem bera ábyrgð á því að sérstakur vaktaálagsauki hefur verið afnuminn hjá hjúkrunarfræðingum nú um mánaðarmótin. Varð þetta þess valdandi, að fjölmargir hjúkrunarfræðingar lækkuðu nokkuð í launum enda þótt álag sé mikið í þeirra störfum í miðjum faraldri vegna Kórónuveirunnar.

„COVID faraldurinn tekur áfram á innan heilbrigðiskerfisins. Frá upphafi hefur verið gífurlegt álag á heilsugæslunni, COVID göngudeildin sinnir nú um 1000 einstaklingum og búið er að tvöfalda gjörgæslurúm Landspítala. Til að þetta sé mögulegt þarf mjög margar mismunandi starfsstéttir, á bráðamóttökunni eru við til dæmis með hóp starfsmanna sem sjá meðal annars um að þrífa snertifleti til að forðast smit innan deildar, þau bera ábyrgð á „flutningshúddunum“ sem veikustu sjúklingarnir eru fluttir í milli deildar eða í rannsóknir. Við erum með starfsfólk sem vinnur með bros við þrif alla dag til að tryggja að allt sé tilbúið fyrir næsta sjúklling og starfsemin getur haldið áfram,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðamóttökunnar í færslu á fésbókinni í dag.

„Það eru sjúkraliðar sem sjá um stóran hluta af frumþörfum sjúklinganna sem eru hjá okkur, sjá um að þau fái að borða, komist á salerni og sinna almennri ummönnun. Ritarar sem sjá um alla þessa hluti varðandi inn- og útritun, greiðslu og að allt bara virki sem við hins skiljum ekkert í.

Stærsti hópurinn eru svo hjúkrunarfræðingarnir – hryggjarstykkið í heilbriðgðisþjónustunni, einsog Páll forstjóri hefur endurtekið kallað þá. Þetta er ómissandi hópur ótrulegra einstaklinga sem brenna fyrir að aðstoða þá sem leita til okkar. Þau ykkar sem ekki hafið lent í því – Ímyndið ykkur að hafa greinst COVID, það eru hjúkrunarfræðingar sem hringja í ykkur daglega og gá að því að það sé í lagi með ykkur, veita ykkur ráð og uppörvun. Ímyndið ykkur að þið munduð fá alvarlegri COVID, það eru hjúkrunarfræðingar sem fara í hlíðarbúnað, jafnvel allan vinnudaginn og sinna ykkur, hjúkra ykkur aftur til heilsu,“ segir hann.

Og Jón Magnús bætir við nokkrum spurningum:

  • Hvernig er hægt að lækka laun þessa hóps í miðjum COVID faraldri?
  • Hvernig er hægt að fara á fætur og horfa á sjálfan sig í spegli þegar maður ber ábyrgð á þeirri ákvörðun?
  • Hvernig er hægt að láta hjá líða í meira en ár að semja við þennan hóp?

Hann endar færslu sína með þeim orðum að stjórnvöld eigi að hunskast til að semja við hjúkrunarfræðinga. Heilbrigðiskerfið virki ekki án þeirra.