Í bókinni Vörn gegn veiru, eftir Björn Inga Hrafnsson ritstjóra Viljans, er meðal annars rætt við Ólaf Jóhann Ólafsson rithöfund og athafnamann sem kom frá Bandarikjunum til Íslands í mars vegna veirunnar.
Hann segir:
„Það er erfitt að útskýra þetta fyrir Íslendingum. Frelsið og gæðin sem við búum við eru einstök. Þetta er upplýst samfélag þar sem innviðir eru traustir og fólk stendur saman þegar á reynir. Þjóð sem getur rifist endalaust um hvaða tittlingaskít sem er frá degi til dags en tekur höndum saman sem einn maður þegar á reynir. Stjórnmálamenn höfðu vit á að halda sig til hlés, vísindamennirnir okkar unnu eftir áætlun sem byggðist á nýjustu þekkingu og gömlum viðteknum vísindum og maður skynjaði hvernig traustið umvafði samfélagið.
Á hinn bóginn versnaði ástandið í New York dag frá degi svo maður varð hreinlega harmi sleginn. Bandaríkin féllu algjörlega á þessu prófi. New York og margar aðrar borgir þessa heimsveldis verða lengi að jafna sig á þessu áfalli. Þegar við þurftum mest á styrkri stjórn að halda sátum við uppi sem mann sem tók enga ábyrgð, þvældist bara fyrir og setti sjálfan sig í forgrunn til að verða sér úti um fleiri mínútur á besta sjónvarpstíma. Það var skelfilegt að horfa upp á þetta.
Í ljós kom að innviðir þessa risaveldis eru fúnir, efnamunur orðinn allt of mikill í samfélaginu og heilbrigðiskerfi og menntakerfi eftir því. Við þær aðstæður skiptir engu máli hvort þú átt fjármuni eða ekki, kerfið sjálft fúnkerar ekki og enginn ræður neitt við neitt. Að eiga skjól á Íslandi var okkar mesta gæfa. Héðan af Íslandi var ég í sambandi við gamla vini fyrir vestan. Þeirra viðkvæði var alltaf þetta: Hvernig get ég orðið Íslendingur? Menn sem eru eldri en ég spurðu í gamni og alvöru hvort ég gæti ættleitt þá. Við þær aðstæður sem nú eru uppi í heiminum munu margir velja sér búsetu eftir öryggi og lífsgæðum fyrir sig og sína. Tölvutenging er það eina sem þarf til að sinna erindum og margs konar starfi, en að geta boðið börnum sínum upp á öryggi og frelsi í stað þess að hírast heima í útgöngubanni er ekki flókið reikningsdæmi.“