Hvers átti Sigmundur á Selfossi að gjalda?

Viðbrögð Ríkisútvarpsins og einstakra starfsmanna fréttastofu RÚV við úrskurði siðanefndar stofnunarinnar við kæru Samherja eru mjög lýsandi og ákaflega fyrirsjáanleg. Leggja ber siðanefndina niður, breyta reglunum, fordæma úrskurðinn. Allt annað en pæla í innihaldinu og hvort Helgi Seljan fréttamaður kunni að hafa farið offari á samfélagsmiðlum, eins og úrskurðurinn ber þó með sér með sér.

Vandað fólk í siðanefndinni bendir á að siðareglurnar séu svona og það hafi verið starfsmenn RÚV sjálfir sem hlutast hafi til um samningu þeirra. Aðrir vísa til þess að sambærilegir ríkisfjölmiðlar annars staðar leggi mikið upp úr hlutleysi starfsmanna sinna í þjóðmálaumræðunni og benda t.d. á að BBC hafi nokkrum sinnum vikið stjörnum sínum úr starfi fyrir gáleysisleg skrif á samfélagsmiðlum.

En úr því fréttamenn RÚV telja siðareglurnar rugl og hamlandi fyrir tjáningarfrelsi fólks sem varið sé í stjórnarskrá, er kannski ekki úr vegi að spyrja hvers Sigmundur Sigurgeirsson, fréttamaður RÚV á Suðurlandi, hafi þá átt að gjalda?

Sigmundur var umsjónarmaður svæðisútvarps RÚV á Suðurlandi og fréttamaður stofnunarinnar þegar hann fékk áminningarbréf árið 2005 fyrir að hafa tjáð sig full frjálslega um Baugsmálið, sem þá var í algleymingi. Það voru ummæli hans á bloggsíðu sem urðu til þess að hann var áminntur og ákveðið að láta hann ekki gegna frekari störfum fyrir fréttastofuna. Hann hefði tekið afstöðu í viðkvæmu deiluefni og hlutleysi hans mætti draga í efa.

Lesa má í frásögn Morgunblaðsins frá þessum tíma, að málið hafi komið upp í ágúst 2005 og það hafi verið mat bæði Boga Ágústs­son­ar, for­stöðumanns frétta­sviðs RÚV, og Óðins Jóns­son­ar frétta­stjóra að „með skrif­um sín­um hafi Sig­mund­ur sýnt slíkt dómgreind­ar­leysi að við treyst­um hon­um ekki leng­ur til að vinna við frétt­ir í Rík­is­út­varp­inu“.

Jafnframt var haft eftir Dóru Ingva­dótt­ur, lög­fræðing­i Rík­is­út­varps­ins, að málið hefði fengið meðferð eins og hæf­ir op­in­ber­um stofn­un­um.

Sú spurning vaknar nú hvort viðbrögðin nú við úrskurði siðanefndarinnar hæfi opinberum stofnunum, eða hvort slíkar reglur eða viðmið gildi einfaldlega aðeins um Sigmund Sigurgeirsson og hans líka, en ekki aðra. Og til hvers að vera með siðareglur ef enginn ætlar að fara eftir þeim?