Hvers vegna er Katrín nú að taka afgerandi forystu?

Skoðanakönnun Gallup í kvöld fyrir Ríkissjónvarpið er fimmta skoðanakönnunin í röð sem sýnir forystu Katrínar Jakobsdóttur fv. forsætisráðherra. Ef eitthvað er, virðist Katrín vera að skilja sig frá öðrum frambjóðendum á endasprettinum og í sætum tvö til fjögur skilur lítið frambjóðendur að.

Hvers vegna er Katrín nú að taka þessa forystu? Kosningabaráttan hefur verið fjörug og einstakir frambjóðendur hafa skipst á að „eiga sviðið“. Ótrúleg innkoma Höllu Hrundar Logadóttur orkumálastjóra var saga sem var eiginlega of góð til að vera sönn, eins og nú hefur komið á daginn og línur eru einfaldlega að skýrast þessa dagana.

Katrín hefur farið um allt land og hitt gríðarlegan fjölda fólks. Í viðtölum og kappræðum hefur reynsla hennar skinið í gegn; erfiðar spurningar slá hana ekki út af laginu og stutt er í húmorinn, þótt álagið sé eflaust mikið. Kosningavél hennar er skipulögð og nýtur góðs af reynslu fólks úr úr ýmsum áttum, t.d. úr Samfylkingu, Framsóknarflokki, Miðflokknum, Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Vinstri grænum. Margt af því fólki hefur oft tekist hraustlega á í kosningum, en vinnur nú saman sem ein heild í því að tryggja góða kosningu þann 1. júní nk.

Stuðningur samstarfsmanna og fyrrum andstæðinga

Katrín er umdeildur stjórnmálamaður, skárra væri það nú eftir sjö ár í stól forsætisráðherra. En það hlýtur að segja eitthvað, að nánir samstarfsmenn og pólitískir andstæðingar, skuli bera henni góða sögu úr persónulegri viðkynningu og styðja hana í því persónukjöri sem framundan er.

Svo hefur persónuleg gagrýni á Katrínu keyrt úr hófi fram undanfarna daga, jafnvel á stuðningsmannasíðum annarra frambjóðenda. Eða frá þeim sjálfum. Ekkert er að því að gagnrýna og spyrja erfiðra spurninga, en staðreyndin er samt sú að persónuárásir eiga það til að snúast upp í öndhverfu sína. Um það eru mörg dæmi í stjórnmálasögu landsins og heimsins og fólk kann því sem betur fer illa að láta persónuníð vaða uppi í umræðunni.

En í ljósi þessarar afgerandi forystu nú, er ballið þá bara búið og sigur Katrínar öruggur eftir rúma viku?

Alls ekki.

Taktísk kosning?

Enn getur margt gerst og alltaf er sá möguleiki að sá frambjóðandi sem líklegastur er til að geta skákað Katrínu, fái allt í einu mikinn vind í seglin. Að Íslendingar fari í það sem kalla mætti taktíska kosningu.

Vandinn er sá, að ekki er augljóst hvaða frambjóðandi það gæti verið. Halla Tómasdóttir er klárlega líklegust í ljósi nýlegrar fylgisaukningar, en stuðningsmenn Höllu Hrundar og Baldurs Þórhallssonar munu ekki gefa neitt eftir baráttulaust. Þá er Jón Gnarr enn líklegur til að eiga góðan endasprett (sérstaklega ef hann lætur gleðina ráða för) og vaskur er nether Arnars Þórs Jónssonar, þótt oft fari hann rösklega fram úr sér.

Við þessar aðstæður er líklegt að Katrín eigi fastara kjarnafylgi en aðrir frambjóðendur hjá þeim sem þegar hafa gert upp sinn hug. Þrátt fyrir allar persónuárásirnar og þrátt fyrir pólitíska fortíð ætla 27% landsmanna að kjósa Katrínu, af því að þeim finnst hún skara framúr. Það er átta prósentustigum meira en næsti frambjóðandi fær og það er ekki lítið, þegar hér er komið sögu og vika í kosningar.

Ekkert í hendi

Stuðningsmenn Katrínar ættu þó að fara varlega í að fagna sigri strax, lokaspretturinn er eftir og enn getur margt gerst. Sjálf sendi hún stuðningsfólki sínu skýr skilaboð í dag um að enn væri verk að vinna:

„Elsku vinir! Takk fyrir alla ykkar vinnu og hvatningu undanfarna daga og vikur! Það er ekki annað hægt en að njóta þessarar kosningabaráttu með stuðningsfólk eins og ykkur!

En nú er lokasprettur baráttunnar framundan. Vissulega er gott að sjá að okkur gengur vel í könnunum en það er ekkert í hendi, Nú skiptir mestu að halda dampi, tala við sem flesta og halda jákvæðninni og gleðinni sem hefur einkennt baráttu okkar frá fyrsta degi!

Þessa lokadaga mun ykkar framlag skipta sköpum til að tryggja sigur á kjördag. Ég veit að þið munuð öll leggja ykkar af mörkum og fyrir það er ég ótrúlega þakklát.“

Svo mörg voru þau orð. Katrín veit sem er, að vika er langur tími í pólitík.