Í­hugum það áður en við trúum orði frá gömlu sviðs­ljóss­fíklunum

Útgefandi Fréttablaðsins tekur einarða afstöðu með innleiðingu þriðja orkupakkans í leiðara blaðsins í dag og segir fáeina „sviðsljóssfíkla“ úr eldri kantinum halda uppi andstöðunni með rangfærslum og falsfréttum.

Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi Fréttablaðsins, vísar til ummæla Styrmis Gunnarssonar, fv. ritstjóra Morgunblaðsins í leiðaranum, en hann sagði baráttu Orkunnar okkar snúast um „föður­lands­ást“ og „þjóð­ernis­kennd“. Sömu kenndir hefðu verið grund­völlur Brexit-hreyfingarinnar um út­göngu Breta úr Evrópu­sam­bandinu.

Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi Fréttablaðsins.

„Merki­legt er ef gamli rit­stjórinn ætlar að gera Brexit-klúðrið að rómantískri fyrir­mynd fyrir ís­lenskra and­stæðinga Þriðja orku­pakkans.

Kannski missti Styrmir út úr sér kjarna málsins. Er það ætlun Orkunnar okkar að heyja bar­áttu í anda Brexit? Á að bjaga sann­leikann og búa til hlið­stæðan veru­leika þar sem vegið er að sjálf­stæði þjóðarinnar? Ýmis­legt bendir til þess, en að baki fylkingunni standa annars vegar lands­þekktir popúlistar og hins vegar gamlar kempur sem eygja síðasta mögu­leikann á að kreista loka­geislana úr sviðs­ljósinu.

Flestir ef ekki allir máls­metandi stjórn­mála­menn og sér­fræðingar sem hafa tjáð sig telja að í til­skipuninni felist hvorki fram­sal á full­veldi né yfir­ráðum yfir orku­auð­lindum – treystum eigin dóm­greind og sér­fræðinga en ekki þekktra hesta­hvíslara.

Styrmir segir þjóðernisást einkenna andstöðuna við orkupakkann.

Ef bar­átta and­stæðinga orku­pakkans snýst um að Ís­land dragi sig út úr al­þjóða­sam­starfi með upp­sögn EES-samningsins er best að það sé sagt. Þá er hægt að eiga opna og hrein­skiptna um­ræðu, enda er það svo í samnings­bundnu sam­starfi að ekki verður bæði sleppt og haldið. Ís­land, líkt og Bret­land, er eyja og enn ein­angraðri í al­þjóð­legu til­liti. Stærstur hluti lífs­gæða okkar er til­kominn vegna sam­skipta við aðrar þjóðir. Ekkert eitt hefur skipt meira máli í því en EES.

Fólk ætti að horfa í kringum sig og átta sig á því að öll okkar til­vera byggist á ó­hindruðum milli­ríkja­sam­skiptum. Hvort sem það er bíl­lykillinn í vasanum eða kaffið í krúsinni. Í­hugum það áður en við trúum orði frá gömlu sviðs­ljóss­fíklunum,“ segir útgefandi Fréttablaðsins.