Í dag standa öll spjót á VG

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, með Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

„Í dag standa öll spjót á VG. Kjarasamningar eru í uppnámi. Skattaútspil ríkisstjórnarinnar var illa grundað og heimskulegt. Þjóðin er þreytt á meðferðinni á sjálri sér og styður verkföll. Deyfð og framtaksleysi VG í kjaradeilunum lætur flokkinn hálfvegis líta út einsog í liði með atvinnurekendum. Fylgið hrynur — bæði af flokknum og ríkisstjórninni. VG er skammað úr öllum áttum. Mest hamast hjarðir samfélagsmiðlanna á þeim stöllum Svandísi og Katrínu. Eðlilega. Þær stýra VG.“

Þetta segir Össur Skarphéðinsson, fv. utanríkisráðherra, í færslu á fésbókinni.

Hann segir enn eiga eftir að koma í ljós hvort eru raunveruleg bein í Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Sama verði þó varla sagt um Svandísi Svavarsdóttur eftir rúmt ár í stóli heilbrigðisráðherra.

„Ég hef sosum aldrei verið í hópi sérstakra aðdáenda hennar. Mér sýnist þó sem “grand old man” með dvínandi áhuga á stjórnmálum innan lands að á stuttum tíma hafi Svandís gert furðu gott mót. 

Össur Skarphéðinsson.

Með íhaldið sitjandi á rammlæstum ríkissjóði þarf bæði bein í nefinu og nokkra kúnst til að ná því fram að fella niður gjöld aldraðra og öryrkja fyrir heimsóknir á heilsugæslur og til lækna. Það tókst Svandísi og vakti furðu litla athygli. Hún hefur tilkynnt að síðar á árinu verði heimsóknir lækna heim til þessara hópa sömuleiðis ókeypis. Geðheilbrigðispakkinn frá henni um daginn var ekki síður mikilvægt skref, eiginlega “banebrydende”. Þetta er alvörupólitík. Um þetta munar í lífi venjulegs fólks. Um svona hluti snúast alvöru stjórnmál,“ segir Össur.

„Það þarf slægð, klær og hvassar tennur til að rífa svona pakka út úr hvofti fjármálaráðuneytis, ekki síst ef því er stjórnað af formanni Sjálfstæðisflokksins. Þar láta menn ekkert laust án átaka. Svandís hefur kannski ekki hinn hverfula kjörþokka sem Katrín hefur notið, en hún bítur og slær á stalli, er illskeytt í átökum og íhaldið veit, væntanlega af grimmri reynslu, að það kemst ekkert með VG nema Svandís sé “í lagi”. Slíkt orðspor dugar býsna vel kringum fjárlög.

Ég er orðinn svo gamall að mér leyfist að segja það – og af því ég þekkti öll þrjú: líklega sameinar Svandís það besta úr pabba sínum og mömmu. Þó ríkisstjórnin falli í verkfallsátökum — sem alltaf getur gerst — sýnist mér að stelpan af Holtsgötunni þurfi ekki að kvíða eftirmælum um veru sína í ráðuneyti sem ég kallaði einu sinni í bríaríi rafmagnstólinn í íslenskum stjórnmálum. 

Í hverri ríkisstjórn eru bæði drollarar og dúerar. Öfugt við til dæmis umhverfisráðherrann hefur Svandís reynst vera dúer í pólitík,“ segir Össur.