Í bókinni 1984 eftir George Orwell talar fólkið nýlensku, eða „newspeak“, sem hann kallaði svo. Þar er einnig að finna svokallaða „tvíhyggju“ – það að halda samtímis uppi tveim gagnstæðum skoðunum í huga sér og samþykkja þær báðar.
Winston Smith er starfsmaður Sannleiksráðsins, hann er að verða fertugur og hefur þann starfa að breyta upplýsingum í blöðum og kennslubókum eftir skipunum Flokksins. Yfir öllu vakir Stóri bróðir og fylgist vel með öllu sem gert er og sagt er.
Ráðið var í risabyggingu og á framhlið hennar stendur:
STRÍÐ ER FRIÐUR
FRELSI ER ÁNAUÐ
FÁFRÆÐI ER MÁTTUR
Þetta kom upp í hugann í vikunni sem oftar í þessu ríkisstjórnarsamstarfi, þegar Sigurður Ingi Jóhannsson greip til nýlensku með þeim hætti að George Orwell hefði varla getað annað en stoltur.
Í umræðu um mögulegar aðhaldsaðgerðir vegna 80 milljarða útgjalda ríkissjóðs í tengslum við nýgerðra kjarasamninga, þar sem samgönguáætlun og möguleg áhrif á hana bar á góma, sagði ráðherrann: „…að ekki verði gripið til niðurskurðar í samgönguáætlun til að mæta auknum útgjöldum ríkissjóðs vegna kjarasamninga. Hins vegar þurfi mögulega að fresta framkvæmdum.“
Það var og. Alls ekki farið í niðurskurð, en ekki framkvæmdirnar heldur.
Reynsluboltum úr samgöngugeiranum varð um og ó, enda hefur alla tíð verið litið svo á að frestun á framkvæmdum í samgönguáætlun sé niðurskurður á gildandi áætlun. Áætlanir eru enda tímasettar og hafi milljarður verið settur í tiltekið verkefni árið 2024 en verður svo ekki, hefur það verið skorið af áætluninni. Það bara blasir við.
Líti innviðaráðherra svo á að eingöngu sé um niðurskurð að ræða ef verk sé fjarlægt af samgönguáætlun, þá hefði það aldrei átt að vera þar til að byrja með. En hann hefur, sem kunnugt er, verið manna duglegastur í að skrifa undir viljayfirlýsingar og útbúa glærukynningar um hverskyns framkvæmdir á sviði samgöngu- og húsnæðismála, sem líta svo aldrei dagsins ljós, eru tímasettar langt fram í tímann (þegar einhver allt önnur ríkisstjórn verður við völd) og enginn veit hvernig á að fjármagna.
Ekki verður annað lesið úr orðum ráðherranns en að niðurskurður á samgönguáætlun sé fyrirsjáanlegur, samkvæmt málskilningi almennings og hefðbundnum skilningi þeirra sem um samgönguáætlun véla. Þótt kannski heiti það eitthvað allt annað á nýlensku í innviðaráðuneytinu og í Framsóknarflokknum.
Það má því segja að „Kletturinn í hafinu“ sem er yfirskrift flokksþings Framsóknarflokksins, sem boðað hefur verið til eftir tæpan mánuð og er rækilega auglýst öllum almenningi á samfélagsmiðjum, gæti allt eins verið „Holan í veginum“.