Hæstaréttarlögmennirnir Atli Ingibjargar Gíslason (fyrrv. þingmaður Vinstri grænna), Björgvin Þorsteinsson, Jón Magnússon (fyrrv. þingmaður Frjálslynda flokksins og Sjálfstæðisflokksins) og Tómas Jónsson, rita grein í Morgunblaðið í dag, þar sem þeir vara við innleiðingu þriðja orkupakkans:
„Hinn 14. júní birtist grein undirritaðra í Morgunblaðinu þar sem vakin er athygli á lagalegri óvissu og áhættu sem fylgir því að samþykkja þriðja orkupakkann. Í greininni kom fram sú skoðun að mikilvægt væri að fresta meðferð málsins á Alþingi þar til viss atriði yrðu könnuð til hlítar. Alþingi ákvað að fresta málinu til hausts og það er mikilvægt að stjórnvöld nýti þann tíma til að kanna til hlítar hættu á samningsbrotamálum og skaðabótamálum sem stafað gætu af samþykkt orkupakkans.
Hinn 19. júní sl. rituðu nokkrir lögmenn svar við umræddri grein. Grein þeirra byggist að miklu leyti á misskilningi en niðurstaða þeirra var að engin áhætta væri til staðar „eins og málið er lagt upp“. Þeir telja að valdheimildir erlendra stofnana nái ekki til ákvarðana um hvort sæstrengur verði lagður hingað til lands og heimildir þeirra gildi einungis þegar slík tenging er til staðar og því sé öllu óhætt.
Lögmennirnir virðast ekki átta sig á því að íslenska ríkinu gæti verið nauðugur sá kostur að heimila lagningu sæstrengs eða greiða skaðabætur ella. Á þessa hættu benda þeir Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst í álitsgerð sem þeir unnu fyrir utanríkisráðuneytið í mars sl.
Rafmagn er vara samkvæmt EES-reglum og fellur því undir fjórfrelsið svonefnda, sem tryggir frjálst flæði á fólki, vörum, fjármagni og þjónustu innan svæðisins. Með þriðja orkupakkanum skuldbindur Ísland sig til að innleiða reglur um flutning raforku yfir landamæri þar á meðal um sæstrengi. Án gildistöku þriðja orkupakkans verður ekki lagt í fjármögnun, lagningu og rekstur sæstrengs milli Íslands og ESB-ríkis. Taki orkupakkinn hins vegar gildi er sú fyrirstaða horfin. Bann við lagningu sæstrengs eða tilraunir til að leggja stein í götu slíks verkefnis gætu talist til ólögmætra viðskiptahindrana og hagsmunaaðilar gætu átt rétt á skaðabótum neiti Alþingi eða íslensk stjórnvöld þeim um leyfi til lagningar sæstrengs.
Skaðabótakröfur í slíku máli gætu hlaupið á milljörðum og það hlýtur að teljast glapræði að innleiða orkupakkann án þess að kanna til hlítar þá lagalegu óvissu og efnahagslegu áhættu sem málið hefur í för með sér,“ segja lögmennirnir.