Ástæða er til að vekja athygli á grein Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, í Morgunblaðinu um helgina, þar sem hann vekur athygli á gegndarlausri útþenslu opinbera báknsins hér á landi.
Halldór Benjamín bendir á að efnahagslífið sé að kólna og störfum fækki um þessar mundir í atvinnulífinu. Óvissa sé nokkur um horfur á næstunni og horfur á samdrætti á næsta ári.
„Fjöldi fyrirtækja hefur brugðist við breyttum aðstæðum með hagræðingu í rekstri og uppsögnum starfsfólks. En hið opinbera heldur áfram að þenjast út eins og ekkert hafi í skorist. Fjárlagafrumvarp ársins 2020 gerir ráð fyrir 1.000 milljarða króna útgjöldum ríkisins. Það samsvarar átta milljónum króna á meðalheimili. Áformað er að auka ríkisútgjöld á næsta ári um 73 milljarða króna sem samsvarar 600 þúsund krónum á meðalheimili.
Sveitarfélögin láta sitt ekki eftir liggja. Útgjöld ríkis og sveitarfélaga samtals eru meira en 40% af landsframleiðslu og óvíða hærri. Mikla skattheimtu þarf til þess að standa undir miklum útgjöldum. Skatttekjur hins opinbera eru um 34% af landsframleiðslu og aðeins Svíar eru með þyngri skattbyrði. Það blasir við að með áframhaldandi aukningu útgjalda hins opinbera á sama tíma og landsframleiðslan stendur í stað eða dregst saman styttist í að Ísland verði tvöfaldur heimsmeistari, bæði í opinberum umsvifum og skattheimtu. Það er óviðunandi,“ segir hann og undir hvert orð skal tekið.
„Eftir höfðinu dansa limirnir. Af fréttum af dæma telja stéttarfélög opinberra starfsmanna nú lag að sækja meiri kjarabætur en samið var um í Lífskjarasamningi. Prófsteinn á þróun kjaramála á Íslandi er niðurstaða í kjarasamningum hins opinbera. Lífskjarasamningurinn verður að marka leiðina fyrir samninga opinberra starfsmanna. Annað er óhugsandi.
Fyrirtæki á einkamarkaði verða að vera samkeppnishæf
Fyrirtæki á einkamarkaði verða að vera samkeppnishæf við erlenda samkeppnisaðila og bregðast við með fækkun starfsfólks ef samkeppnishæfni atvinnuveganna dalar. Hið opinbera býr ekki við sambærilegt aðhald og þess vegna verður almenni vinnumarkaðurinn að leiða kjaraþróun í landinu. Ef ríki og sveitarfélög leiða kjaraþróun mun almenni markaðurinn elta hana, þótt svigrúm til launahækkana sé ekki fyrir hendi. Það leiðir til fækkunar starfsfólks og verðbólgu eins og dæmin sanna. Kjör allra landsmanna versna,“ bætir framkvæmdastjóri SA við.
Og hann segir ennfremur:
„Versnandi efnahagshorfur og aðlögun að þeim munu hafa víðtæk áhrif á íslenskt efnahagslíf. Framundan er krefjandi vetur, frekari hagræðingar hjá fyrirtækjum, fækkun starfa og aukið atvinnuleysi.
Nú reynir á framtíðarsýn og stefnufestu stjórnvalda. Með réttum ákvörðunum getum við snúið vörn í sókn. Leggja verður áherslu á hagræðingu í ríkisrekstri, aukna skilvirkni og ekki síst forgangsröðun útgjalda. Ríkið og sveitarfélög verða að bregðast skjótt við breyttum aðstæðum, líkt og fyrirtækin í landinu. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs eru skattalækkanir boðaðar, sem er fagnaðarefni, en meira þarf að koma til.
Ef fram fer sem horfir verður Ísland áfram í sérflokki háskattaríkja í alþjóðlegum samanburði. Forgangsmál næstu ár er að skapa aukið rými í ríkisrekstri til að lækka skatta og styðja þannig við samkeppnishæfni atvinnulífsins, fjölgun starfa og bætt lífskjör landsmanna. Það er brýnasta verkefni stjórnmálanna. Það gengur ekki að fyrirtæki bregðist við breyttum aðstæðum og hagræði í rekstri en hið opinbera sé undanskilið.“
Viljinn auglýsir eftir íslenskum stjórnmálaflokkum og mönnum sem þora að benda á þessa öfugþróun og segja henni stríð á hendur.