„Ég er sjálf hluti af þjóðkirkjunni og ég hef mína trú. Fyrir mér er það ekki vandamál og ég held líka að íslenskt samfélag byggi á gildum – kristnum gildum – sem ég held að sé mikilvægt að halda utan um.“
Þetta sagði Halla Hrund Logadóttir á forsetafundi Morgunblaðsins og mbl.is sem fram fór á Egilsstöðum á dögunum og er ánægjulegt að sjá svo eindregna afstöðu hjá forsetaframbjóðandanum um gildi kristinnar trúar í nútímasamfélagi. Ekki þora allir, hvað þá frambjóðendur, að taka svo eindregið til orða á tímum þegar hræðsla við að móðga náungann virðist stundum öllu yfirsterkari og því er rétt að hrósa fyrir það sem vel er gert.
Á stuðningsmannasíðu hennar má sjá stuðningsmenn skiptast í tvo hópa, hvort heppilegt væri hjá frambjóðanda að láta slík ummæli falla, en Halla Hrund sagði réttilega á fundinum að trúarbrögð væru mjög persónuleg fyrir fólk og ef það væri á annað borð trúað, væri trú hvers og eins afar mismunandi.
„En sem forseti þarftu að geta tekið utan um alla í samfélaginu og sameinað og fundið þá lykilþætti sem við erum sammála um,“ sagði hún ennfremur.