Jafnaðarmenn og frjálslyndir landlausir í morknu flokkakerfi

„Seint verður sagt að saga vinstri hreyfingar á Íslandi sé glæsileg þessa fyrstu tvo áratugi aldarinnar,“ segir Jakob Bjarnar Grétarsson, stjörnublaðamaður á Vísi, í athyglisverðri færslu á fésbókinni um hátíðirnar.

Hann heldur áfram:

„Kratar og kommar, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalagið auk Kvennalista sameinuðust í kringum aldamót. Steingrímur J. fékk ekki að vera formaður og fór í fýlu, stofnaði VG undir því yfirskyni að Samfylkingin væri ekki nógu vinstri sinnuð fyrir sinn smekk (sic). Samfylkingin vildi starfa undir kjörorðunum frjálslynd jafnaðarmennska en einhvers staðar á leiðinni, sennilega í keppni við VG um atkvæði fámenns en háværs hóps, var strikað yfir „frjálslyndur“. “

Augljóst er að blaðamaðurinn finnur sig ekki í neinum flokki vinstra megin við miðju:

„Þannig er vinstrið allt meira og minna óforbetranlegt í hugmyndaleysi stjórnlyndis og forræðishyggju. Enda skammtímalausnir með boðum og bönnum bestu vinir lýðskrumarans. Þeir sem aðhyllast jöfnuð og frjálslyndi, sennilega meirihluti landsmanna, eru landlausir í því morkna flokkakerfi sem við búum við.“