Óhætt er að segja að tíðindi séu framundan á íslenskum verslunarmarkaði með breytingum sem orðið hafa að undanförnu hjá Skel fjárfestingarfélagi, áður Skeljungi, undir forystu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ásgeirs Helga Reykfjörð Gylfasonar og þýða, samkvæmt heimildarmönnum Viljans, að aukin samkeppni gæti verið framundan í verslun hér á landi sem ættu að teljast góð tíðindi fyrir neytendur.
Þannig var skýrt frá því á dögunum, að Heimkaup hafi gengið frá kaupum á öllum verslunarrekstri Orkunnar IS ehf., dótturfélagi Skeljar fjárfestingarfélags, hér á landi eftir að Samkeppniseftirlitið heimilaði viðskiptin. Kaupverðið voru rúmir fimm milljarðar og voru greiddir að öllu leyti með nýjum hlutum í Heimkaupum.
Á hluthafafundi Heimkaupa sem var haldinn í vikunni sem leið, var samþykkt heimild til stjórnar félagsins að auka hlutafé þess um allt að sjö milljarða króna, m.a. til að mæta skuldbindingum sínum vegna kaupanna. Samhliða undirritun kaupsamnings skrifuðu Norvik hf., móðurfélag Byko, og HIBB holding ehf., fjárfestingarfélag Hjalta Baldurssonar, undir áskriftarsamning að nýju hlutafé í Heimkaupum, þar sem félögin tvö skrá sig fyrir nýju hlutafé að andvirði samtals 500 milljónir króna. Þá ráðgerir Heimkaup að auka hlutafé um allt að 1,5 milljarða króna síðar á árinu með sölu til nýrra fjárfesta.
Gréta María Grétarsdóttir var fyrr á árinu ráðin forstjóri Heimkaupa eftir að hafa gert góða hluti í rekstri Krónunnar og Arctic Adventures. Innan fyrirtækisins eru nú starfandi níu verslanir undir merkjunum 10-11, Extra og Orkunnar, sjö apótek Lyfjavals, þar af 4 með bílalúgum, átta bakarí Brauð & Co auk eignarhlutar í veitingastöðum Sbarro og Gló.
Landsmenn hafa margir kvartað að undanförnu yfir skorti á samkeppni á matvörumarkaði sem birtist helst í litlum verðmun milli verslana, eins og komið hefur vel í ljós í nýrri verðgátt sem hleypt var af stokkunum fyrir skemmstu. Jón Ásgeir er hvað þekktastur fyrir að hafa stofnað Bónus ásamt föður sínum heitnum, Jóhannesi Jónssyni, og innleitt lægra vöruverð hér á landi og margvíslegar nýjungar með harðri samkeppni við gamalgróin verslunarfyrirtæki sem töldu sig eiga markaðinn. Vonandi endurtekur hann leikinn nú, landsmönnum til hagsbóta.