Ný skoðanakönnun sem Prósent hefur gert og Morgunblaðið birtir í dag, sýnir að Baldur Þórhallsson prófessor nýtur mests fylgis forsetaframbjóðenda fyrir komandi forsetakosningar. Þótt ekki sé tölfræðilega marktækur munur á honum og Katrínu Jakobsdóttur fv. forsætisráðherra, er Baldur með 27,2% fylgi og Katrín með 23,8%.
Blaðið gefur upp vikmörk könnunarinnar, sem sýna að Baldur gæti verið með fylgi á bilinu 24,6 til 29,9%, en Katrín með fylgi á bilinu 21,3-26,4%.
Athygli vekur að fjórði frambjóðandinn kemur sterk inn: Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri mælist með 18% fylgi og hefur þannig náð þriðja sætinu af Jóni Gnarr, þótt munur á þeim sé einnig vel innan vikmarka.
Undanfarna daga hefur Jón Gnarr fv. borgarstjóri farið þá óvenjulegu leið að beina spjótum sínum mjög að Katrínu sem mótframbjóðanda. Hefur hann sagt nánast ósanngjarnt að eiga í höggi við manneskju sem kemur beint úr stjórnmálum og að hún hafi hlaupist undan ábyrgð og merkjum sem forsætisráðherra með ákvörðun sinni um framboð.
Jón Gnarr virðist, skv. könnun Prósents, ekkert fylgi fá út á þessar árásir sínar á Katrínu, nema síður væri. Fylgi hans fer niður milli kannana. En það gerir fylgi Katrínar líka, sem bendir til þess að gagnrýnin hafi hitt hana eitthvað fyrir. Það eru hins vegar aðrir frambjóðendur sem græða á hnútukastinu, sem stórt stökk Höllu Hrundar er vísbending um.
Sama þróun átti sér stað í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar fyrir átta árum. Þá beindi Davíð Oddsson fv. forsætisráðherra spjótum sínum mjög að Guðna Th. Jóhannssyni og hljóp stundum nokkur harka í þann slag. Davíð náði lítið að auka fylgi sitt með þeim árásum, en þær bitnuðu á Guðna sem missti nokkurt fylgi og þriðji frambjóðandinn naut þess þá að vera utan slagsmálanna, það var Halla Tómasdóttir sem endaði að lokum í öðru sæti.
Talið er að kosningabaráttan fari á fulla ferð á næstu dögum, en þann 2. maí nk. mun Landskjörstjórn staðfesta öll gild framboð og gefa út lista yfir þá frambjóðendur sem kjósa skal um í kosningunum 1. júní nk.