„Sjálfstæðisflokkurinn fagnaði 90 ára afmæli sínu á dögunum og afmælisveisla var haldin í Valhöll. Afmælisgjöf forystunnar að þessu sinni voru ræðuhöld pólitískra andstæðinga og undarlegt staðarval á afmælisgrein sem virðist eingöngu einhverslags púðurskot beint að Davíð Oddssyni. Ég held að það og aðrar kafbátaárásir á Davíð Oddsson hafi verið og séu stór mistök,“ segir Viðar Guðjohnsen lyfjafræðingur og sjálfstæðismaður í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
„Ég kaus, hjálpaði til við söfnun meðmæla og fylgdist með Davíð í forsetakosningunum síðustu. Ég kaus hann því ég taldi hann hæfasta frambjóðandann. Ég hjálpaði til við söfnun meðmæla því ég vildi gefa eitthvað til baka þeim manni sem hafði gefið þjóð sinni svo margt. Svo fylgdist ég með honum. Það gerði ég fyrst og fremst til þess að læra.
Maður getur lært margt af meisturum bara með því að fylgjast með. Það var margt sem ég lærði og enn fleira sem ég tók eftir. Ég tók eftir því að einn mesti styrkur Davíðs er hvað hann er góður að lesa menn og umhverfið. Það er engin furða að hann var óstöðvandi á sínum tíma og nýtur enn hylli. Ofan á þann mannkost segir hann það sem þarf að segja. Slíkt gera því miður of fáir nú til dags.
Ég tók líka eftir því að hjarta Sjálfstæðisflokksins sló og slær enn í takt með Davíð Oddssyni. Menn mættu hafa það í huga að þegar menn vega að Davíð Oddssyni vega menn á sama tíma að sál og sögu flokksins. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra,“ segir Viðar í grein sinni.