Kaldar kveðjur til hugsjónafólks

Metsöluhöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson kynna lokaumræður Iceland Noir í Hörpu í gær.

Þá er velheppnaðri bókmenntahátíð lokið, Iceland Noir, sem sett hefur skemmtilegan svip á mannlífið undanfarna daga. Áhugaverðar uppákomur og höfundaspjall í Fríkirkjunni og á Vinnustofu Kjarvals þar sem íslenskum höfundum og erlendum hefur gefist tækifæri til að koma saman og lesendur fengið innsýn í áhugaverðan heim rithöfundarins.

Af einhverjum furðulegum ástæðum hefur minna farið fyrir því stórmerka starfi sem Ragnar Jónasson og Yrsa Sigurðardóttir og fleira hugsjónafólk hafa af óeigingirni unnið fyrir íslenskar bókmenntir, því hneykslunargjarnt rétttrúnaðarfólk tók upp á því að gera að aðalatriði að Hillary Clinton, fv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, væri einn gesta hátíðarinnar og eyddu ómældri orku í að tala hana niður af þeirri ástæðu og hvetja rithöfunda og lesendur til að sniðganga hana.

Sem betur fer tókst það ekki og bókmenntahátíðin gekk frábærlega og uppselt á flesta viðburði (sem er ekkert smá afrek) en nú berast fregnir af því að óvíst sé um framhald þessa merka viðburðar í íslensku menningarlífi í ljósi þess sem á undan er gengið og skyldi engan undra.

Það er auðvitað ekkert að því að tekist sé á um alþjóðamál í menningarlífi samtímans, en framganga margra rétttrúnaðarpáfa gagnvart Iceland Noir var smekklaus og óverðskulduð. Svo vill til, þó ekki sé annað týnt til, að Hillary Clinton er einn af merkilegri stjórnmálamönnum samtímans; kona sem hefur brotið hvert glerþakið á fætur öðru og ummæli hennar um deiluna fyrir botni Miðjarðarhafs voru í engu frábrugðin því sem flestir stjórnmálaleiðtogar á Vesturlöndum hafa sagt undanfarnar vikur.

En á hátíðina var hún komin ásamt kanadíska rithöfundinum Louise Penny, en þær skrifuðu saman metsölubókina State of Terror, alþjóðlega spennusögu um bandarískan utanríkisráðherra sem lendir í hringiðu flókinna viðburða á sviði alþjóðamála og hryðjuverkaógnar. Og þess er að geta að lokaumræður þeirra í Hörpu í gær að viðstöddu fjölmenni, þar sem Eliza Reid var í hlutverki spyrils, voru framúrskarandi áhugaverðar.

Það er hvort tveggja vond tilhugsun, að framtíð Iceland Noir sé í uppnámi og rétthugsunarliðið krefjist þess að allir sem eru ekki á sömu línu verði útskúfaðir frá slíkum hátíðum. Ástæða er til að hrósa Ragnari og Yrsu og samstarfsfólki fyrir að halda sínu striki, því miklu meira er undir en sýnist. Ef slíkar frekjuraddir hafa betur, verður til ósýnilegt glerþak rétthugsunar, þar sem aðeins óumdeilt fólk á réttri línu, verður talið æskilegir gestir hátíða á borð við Iceland Noir og allir sem strjúka lesendum öfugt og spyrja krefjandi spurninga (eins og listamenn ættu allrahelst að gera) eru útskúfaðir.

Við eigum að þakka slíku hugsjónafólki af heilum hug, en ekki rífa það niður

Hvers konar bergmálshella værum við þá að skapa? Hverjir myndu vilja slíkar listahátíðir? Og það sem meira er: Hverju myndu slíkir viðburðir skila til lengri tíma?

Það er rétt, sem Egill Helgason, skrifaði á dögunum, að „þessi pólarísasjón er eins og sjúkdómur – faraldur – agalegt að upplifa slíkt óþol gagnvart skoðunum annarra. Svo fer manni að líða líkt og maður sé að klemmast á milli öfganna.“

Látum það ekki gerast. Og vonum að Ragnar og Yrsa og fleiri sem verja dýrmætum tíma sínum í að hampa öðrum höfundum og aðstoða við að koma þeim á framfæri, láti ekki hugfallast. Við eigum að þakka slíku hugsjónafólki af heilum hug, en ekki rífa það niður.

Eliza Reid var spyrill í höfundaspjalli í Hörpu, þar sem Hillary Clinton og Louise Penny sátu fyrir svörum.