Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar og einn örfárra talsmanna skattgreiðenda á Alþingi Íslendinga, hitti naglann á höfuðið á þingi í dag, er hún vakti athygli á stjórnlausri útþenslu ríkissjóðs og skuldasöfnun á sama tíma og fólk upplifir að kerfin okkar séu hætt að virka sem skyldi, þrátt fyrir mjög háa skattbyrði á landsmenn í alþjóðlegum samanburði. Það er eitthvað í þessu dæmi sem gengur ekki upp.
Þorbjörg Sigríður sagði:
„Heimilin finna í dag mikið fyrir því hvað matarkarfan er dýr, hvað vaxtakostnaður á lánum rýkur upp. Fólk bæði veit og finnur hvað gerist þegar greiðslur á lánunum hækka. Það hefur áhrif á getuna til að gera hluti sem við vildum annars vera að gera. Heimilin þurfa að forgangsraða. Þetta er líka staða íslenska ríkisins. Lán ríkisins eru dýr, skuldirnar kosta, hallinn hefur afleiðingar.
Ríkissjóður Íslands er að sprengja sig á vaxtakostnaði og það hefur áhrif á getuna til að gera hlutina sem við vildum gera, getuna til að fjárfesta í þjónustu fyrir fólkið í landinu. Hallinn og dýr lán hafa áhrif á getuna til að fjárfesta í þjónustu.
Þess vegna er svo mikið hagsmunamál fyrir fólkið í landinu að ríkið lækki skuldir sínar. Við eigum að koma í veg fyrir það að stór hluti útgjalda ríkisins fari í að borga af lánum. Þeir peningar geta ekki farið í neitt annað á meðan og við eigum að forgangsraða, ekki eyða bara til að eyða.
Á sama tíma er almenningur á Íslandi að borga mjög háa skatta í alþjóðlegum samanburði en fjárfesting stjórnvalda í heilbrigðisþjónustu er minni en á öðrum Norðurlöndum. Biðlistar eru vörumerki heilbrigðiskerfisins. Fólk kemst ekki til heimilislæknis. Aldrað fólk fær hvorki þjónustu við hæfi heima hjá sér né kemst inn á hjúkrunarheimili. Löggæslan er veikbyggð. Lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu hefur farið fækkandi.
Þess vegna þarf að hætta að láta eins og það kosti ríkið ekki að skulda, að halli ríkisins skipti engu máli. Það þarf að fara vel með fjármuni ríkisins, forgangsraða í þjónustu og almannahagsmuni, hætta að eyða eins og peningar séu endalausir og að skuldir ríkisins kosti ekki en geta síðan ekki einu sinni haldið úti grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu eða hvað varðar öryggi borgaranna um löggæslu.“
Undir þetta allt má taka.