Kerfislægur vandi smættaður

Kallinn á kassanum telur að ummæli mánaðarins í stjórnmálum séu fundin með svari Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við fyrirspurn Stundarinnar um viðskipti Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra (þá þingmanns) við Íslandsbanka á árunum fyrir hrun.

Svarið var þannig, að heil sendinefnd af sérfræðingum að sunnan gæti hafa komið sér saman um orðalagið:

„Ég hef ekki verið og er ekki hlynnt þeirri afstöðu að smætta kerfislægan vanda í einstök siðferðileg álitamál sem eru afleiðing aukinnar einstaklingshyggju og einstaklingsvæðingar stjórnmálanna.“

Forsætisráðherra er íslenskufræðingur og afar vel máli farin, þannig að hún hefur eflaust hugsað svar sitt vandlega. Ýmsir af vinstri kantinum fóru enda á hliðina um leið og svarið birtist. Við hverju bjuggust þeir? Að Katrín hjólaði í fjármálaráðherrann sinn og krefðist afsagnar hans?

Nei, Katrín er pollróleg sem fyrr og ákveðin í að sigla stjórn sinni gegnum ölduna og út kjörtímabilið.