Kjarninn nú starfræktur inni á skrifstofu félags Vilhjálms

Panamafélagið Miðeind hýsir nú og fjármagnar Kjarnann á Fiskislóð.

Hörð gagnrýni kemur fram á rekstur og eignarhald vefritsins Kjarnans í nýjasta tölublaði Þjóðmála, sem komu út í morgun. Þar rýnir Sigurður Már Jónsson, einn reyndasti fjölmiðlamaður þjóðarinnar, í eignarhald miðilsins og ritstjórnarstefnu og veltir því upp hver leggi honum til fjármagn „til þess að halda öndunarvélinni gangandi“ eins og það er orðað, en Kjarninn flutti nýlega ritstjórnarskrifstofur sínar í aðsetur félagsins Miðeindar á Fiskislóð.

Sigurður Már hefur komið víða við á löngum blaðamannsferli. Hann var m.a. fréttastjóri á Morgunpóstinum og Viðskiptablaðinu, var ritstjóri Viðskiptablaðsins og Helgarpóstsins, um skeið upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, varaformaður Blaðamannafélags Íslands og hefur undanfarin ár ritað fasta pistla á Morgunblaðsvefinn.

Í grein sinni í Þjóðmálum, sem ber heitið: Kjarninn — að kaupa sig til áhrifa, er rifjað upp að nokkrir vinstrisinnaðir einstaklingar úr fjölmiðlum, stjórnmálum og viðskiptalífi hafi kannað möguleika á að stofna nýjan fjölmiðil vorið 2013 til að veita yfirvofandi hægri stjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar mótstöðu.

Bendir hann á að yfirlýst markmið Kjarnans hafi verið að blaðamenn ættu Kjarnann. „Engir fjárfestar, engin hagsmunaöfl, ekkert rugl,“ eins og það var orðað. Litlu síðar hafi þessi markmið verið fokin út í veður og vind og hluthafar og hagsmunaöfl, tengd Samfylkingu og Viðreisn, æ síðan komið að rekstri fjölmiðilsins.

Sigurður Már segir að samfellt tap hafi verið á rekstri Kjarnans allt frá stofnun, en það stoppi ritstjórann Þórð Snæ Júlíusson ekki frá því að gagnrýna taprekstur annarra fjölmiðla og gera þá tortryggilega. 

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans.

„Í seinni tíð hefur miðillinn orðið að skera niður starfsemi sína og flokkast hann nú undir það að vera eins konar bloggsíða sem birtir hugleiðingar Þórðar Snæs og treystir mikið á endurbirtingar frétta úr öðrum fjölmiðlum, svo mjög að aðrir fjölmiðlamenn hafa orðið að gera athugasemdir við endurbirtingar Kjarnans,“ segir í greininni.

Reyndi að neita og hótaði Eyjunni

Rifjar hann upp að árið 2016 hafi verið greint frá stofnun Kjarnasjóðsins, fyrsta íslenska rannsóknarblaðamennskusjóðsins, sem var ætlað að styrkja stór og metnaðarfull verkefni á sviði rannsóknarblaðamennsku. Myndi hann úthluta allt að 5 milljónum króna árlega. Ekkert hafi þó spurst til sjóðsins síðan.

Ljósmyndin fræga af mótmælum á Austurvelli vegna Panamaskjalanna. Illugi Jökulsson, Vilhjálmur Þorsteinsson og Birna Þórðardóttir meðal mótmælenda, seinna kom í ljós að Vilhjálmur var sjálfur í skjölunum.

Sigurður Már segir að Kjarninn hafi lengi endurvarpað skoðunum hluthafans Vilhjálms Þorsteinssonar, fv. gjaldkera Samfylkingarinnar. Sá hafi verið umfangsmikill fjárfestir með eignarhaldsfélög í skattaskjólum, en á sama tíma hafi Kjarninn unnið í samstarfi við RÚV og Reykjavik Media að afhjúpun á þætti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í Panamaskjölunum. Vilhjálmur hafi mætt á Austurvöll að berja á bumbur og mótmæla stjórnmálamönnum í skattaskjólum, verandi sjálfur einn slíkur. 

Þegar allt komst upp og Eyjan skýrði frá því að gjaldkeri Samfylkingarinnar væri í Panamaskjölunum, reyndi Vihjálmur fyrst að neita fyrir það og hótaði Eyjunni og forsvarsmönnum hennar málsókn, en varð að lokum að viðurkenna allt og dró sig í kjölfarið út úr stjórn Kjarnans og úr trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna.

Sigurður Már Jónsson blaðamaður.

Í grein Sigurðar Más kemur þó fram, að Vilhjálmur fjármagni enn Kjarnann ásamt Hjálmari Gíslasyni. en fjármagn Hjálmars komi m.a. frá eignarhaldsfélögum í skattaskjólinu Delaware í Bandaríkjunum.

Félagið Miðeind hýsi nú ritstjórnarskrifstofur Kjarnans — „er nú starfræktur inni á skrifstofu Vilhjálms,“ eins og segir í greininni.

Þá bendir hann á að Þórður Snær stýri vikulegum fréttaþætti á Hringbraut, sem sé höll undir Viðreisn og þar ráði ríkjum fjárfestarnir Helgi Magnússon og Sigurður Arngrímsson.

„Heimildir eru fyrir því að Helgi hafi samband reglulega við stjórnendur stöðvarinnar og hafi sjálfur útbúið lista yfir fólk sem eigi alls ekki að ræða við þar,“ segir hann í grein sinni.

Sigurður Már gerir að lokum náin tengsl Ríkisútvarpsins og Kjarnans að umtalsefni. Ríkisútvarpið sé nokkurs konar griðastaður starfsmanna Kjarnans, þangað séu þeir jafnan ráðnir án auglýsingar og oft meðan þeir eru enn hluthafar í fjölmiðlinum, en ekkert hafi gengið að selja hlutfé í honum.

Segir hann að viðvarandi taprekstur Kjarnans, geri það að verkum að ritstjórinn gangi hart fram í að sækjast eftir ríkisstyrkjum sem Lilja D. Alfreðsdóttir hafi boðað og af ritstjórnarstefnu og fréttum Kjarnans megi vel ráða pólitískt leiðarhnoð hans, sem sé borgaraleg vinstristefna sem teygi sig allt frá Vinstri grænum um Samfylkingu og yfir á miðjuna til Viðreisnar.

„Hún er raunar svo fyrirsjáanleg (og greinarnar langorðar) að gárungar í fjölmiðlastétt hafa uppnefnt miðilinn Kranann,“ segir Sigurður Már Jónsson.

Uppfært: Fyrirsögn og meginmáli fréttarinnar hefur verið breytt í kjölfar athugasemda sem borist hafa frá Vilhjálmi Þorsteinssyni. Hann segir Miðeind ehf. vera íslenskt einkahlutafélag, í eigu Meson Holding S.A., sem leigi annan helming skrifstofuhúsnæðis á Fiskislóð 31 á móti Kjarnanum sem leigir hinn helminginn. Miðeind geti í engum skilningi kallast „Panamafélag“, Meson Holding S.A. sé venjulegt fullskattlagt lúxemborgískt hlutafélag, upphaflega stofnað árið 2000 af Kaupþingi Lúxemborg. Panama hafi hvergi við sögu við stofnun þess félags. Þá séu tíu ár frá því lúxemborgíska móðurfélagið átti dótturfélag á Bresku Jómfrúeyjum.